Laugardagur 28.04.2018 - 11:34 - Lokað fyrir ummæli

Skrafað um Laxness

Á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl síðastliðinn flutti ég erindi um nýútkomið rit mitt, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Ein rannsóknin var á stjórnmálaafskiptum stalínistans Halldórs K. Laxness, beittasta penna alræðisstefnunnar á Íslandi. Ég sagði ýmsar sögur af Laxness, sem eru ekki á allra vitorði, til dæmis um tilraunir hans til að fá bækur sínar útgefnar á Ítalíu fasista og í Þýskalandi nasista, og brá hann sér þá í ýmissa kvikinda líki. Vitnaði ég í Pétur Pétursson útvarpsþul, sem sagði mér eitt sinn, að heiðurspeningur um Laxness hlyti að hafa tvær hliðar, þar sem önnur sýndi snilling, hin skálk.

Eftir erindið kvaddi Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, sér hljóðs og kvað Laxness hafa verið margbrotinn mann. Í Gerplu lýsti hann til dæmis fóstbræðrum, Þormóði og Þorgeiri. Annar væri kvensamur, skáldhneigður veraldarmaður, hinn baráttujaxl og eintrjáningur, sem sást ekki fyrir. Tómas Ingi varpaði fram þeirri skemmtilegu tilgátu, að í raun og veru væri báðir mennirnir saman komnir í Laxness. Hann væri að lýsa eigin tvíeðli.

Ég benti þá á, að svipað mætti segja um Heimsljós, þegar Ljósvíkingurinn og Örn Úlfar eiga frægt samtal. Ljósvíkingurinn er skilyrðislaus dýrkandi fegurðarinnar, en Erni Úlfari svellur móður vegna ranglætis heimsins, sem birtist ljóslifandi á Sviðinsvíkureigninni. Mér finnst augljóst, að Laxness sé með þessu samtali að lýsa eigin sálarstriði. Annars vegar togaði heimurinn í hann með skarkala sínum og brýnum verkefnum, hins vegar þráði hann fegurðina, hreina, djúpa, eilífa, handan við heiminn.

Tómas Ingi kvað reynsluna sýna, að skáldin væru ekki alltaf ratvísustu leiðsögumennirnir á veraldarslóðum, og tók ég undir það. Laxness var stalínisti og Hamsun nasisti, en skáldverk þeirra standa það af sér. Listaverkið er óháð eðli og innræti listamannsins. Raunar tók ég annað dæmi: Leni Riefenstahl var viðurkenndur snillingur í kvikmyndagerð. En vegna daðurs hennar við nasisma fyrir stríð fékk hún lítið að gera í þeirri grein eftir stríð. Það var mikill missir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir