Laugardagur 12.05.2018 - 07:21 - Rita ummæli

Þokkafull risadýr

Í frægri smásögu lýsir George Orwell því þegar hann var lögregluþjónn í bresku nýlendunni Búrma og neyddist til að skjóta fíl sem hafði troðið niður bambuskofa, velt um sorpvagni og drepið mann. Birtist hún á íslensku í Rauðum pennum 1938 og í annarri þýðingu í greinasafninu Stjórnmálum og bókmenntum 2009. Sögumaður hugsar með sjálfum sér: „Það er einhvern veginn erfiðara að fá sig til að drepa stór dýr.“

Stór dýr eins og fílar og hvalir hafa einmitt hlotið sérstakt nafn á ensku, „charismatic megafauna“ eða þokkafull risadýr. Virðast þau hafa miklu meira aðdráttarafl á fólk en lítil dýr eins og flugur eða rottur. Ýmis náttúruverndarsamtök berjast fyrir því að alfriða þokkafull risadýr og vilja til dæmis harðbanna sölu fílabeins og hvalkjöts.

Þau rök eru færð fyrir friðun að þessi þokkafullu risadýr séu í útrýmingarhættu. En þótt sumir stofnar hvala og fíla séu í útrýmingarhættu eru aðrir það ekki, til dæmis hvalastofnarnir tveir á Íslandsmiðum, langreyður og hrefna. Telja sjávarlíffræðingar að þeir éti árlega sex milljónir tonna af margvíslegu sjávarmeti á meðan við Íslendingar löndum eitthvað um einni milljón tonna af fiski. Friðunarsinnar halda því fram að hér rekist hinn þurftafreki maður á óspjallaða náttúruna. En það er misskilningur. Hér rekast á tveir hópar manna. Annar vill friða hvali en láta Íslendinga fæða þá. Hinn vill nýta hvali og vernda um leið með því að halda nýtingunni innan sjálfbærnismarka.

Svipað er að segja um fíla. Fílar valda margvíslegum usla í heimahögum sínum og fátæku fólki er þar freisting að fella þá og selja fílabeinið, jafnvel þótt það hætti til þess lífinu. Þótt sumir fílastofnar í Afríku séu sterkir eru aðrir því veikir. Til þess að vernda þessa stofna væri skynsamlegast að leyfa sölu fílabeins en veita fólki á heimaslóðum fílanna eignarrétt á skepnunum. Hinir nýju eigendur myndu þá gæta þeirra því að það væri þeirra eigin hagur. Með einu pennastriki myndu veiðiþjófar breytast í veiðiverði.

Vissulega ætti að vernda þokkafull risadýr. En verndun krefst verndara. Ég ræði frekar muninn á verndun og friðun í nýútkomnu riti, Green Capitalism eða grænum kapítalisma.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. maí 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir