Laugardagur 02.06.2018 - 09:08 - Rita ummæli

Skerfur Íslendinga

Ísland er fámennt, hrjóstrugt lítið land á hjara veraldar. Líklega var fyrsta byggðin hér eins konar flóttamannabúðir, eftir að Haraldur hárfagri og aðrir ráðamenn hröktu sjóræningja út af Norðursjó. Engu að síður hafa Íslendingar í sinni ellefu hundruð ára sögu lagt skerf til heimsmenningarinnar og hann jafnvel fimmfaldan, eins og ég benti á í fyrirlestri í Kaupmannahöfn á dögunum.

Eitt er Þjóðveldið frá 930 til 1262. Íslendingar lutu lögum, en bjuggu ekki við ríkisvald, svo að réttarvarsla var í höndum einstaklinga. Mörg verkefni, sem nú eru ætluð ríkinu, voru þá leyst hugvitssamlega.

Annað er Íslendinga sögur. Bókmenntagildi þeirra hefur líklega verið ofmetið, en þær eru engu að síður stórkostlegar heimildir um leit þjóðar að jafnvægi, úrlausn átaka í ríkisvaldslausu landi.

Hið þriðja er fundur Ameríku, þótt Óskar Wilde hafi raunar sagt, að Íslendingar hafi verið svo skynsamir að týna henni aftur.

Hið fjórða er kvótakerfið í sjávarútvegi, en það er í senn arðbært og sjálfbært. Aðrar þjóðir búa margar við offjárfestingu í sjávarútvegi og ofveiði. Þar eru fiskveiðar reknar með tapi og njóta opinberra styrkja. Nú er verið að taka upp kvótakerfi eins og hið íslenska um heim allan.

Hið fimmta er að gera innstæður að forgangskröfum í bú banka, eins og hér var gert með neyðarlögunum 6. október 2008. Með slíkri reglu minnka stórlega líkur á áhlaupum á banka og upphlaupum á götum úti, svo að ríkisábyrgð á innstæðum í því skyni að róa sparifjáreigendur verður óþörf. Evrópusambandið tók regluna upp árið 2014, sex árum á eftir Íslandi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. júní 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir