Sunnudagur 17.06.2018 - 00:05 - Rita ummæli

Hvað sagði ég í Bakú?

Ég tók þátt í ráðstefnu Evrópusamtaka íhaldsmanna og umbótasinna, ACRE, í Bakú í Aserbaídsjan 8.-9. júní 2018, og lék mér forvitni á að heimsækja landið, sem liggur við Kaspíahaf og er auðugt að olíu. Bersýnilega er einhverju af olíutekjunum varið í innviði, sem eru mjög nútímalegir. Þótt gamli borgarhlutinn í Bakú sé vel varðveittur, rísa glæsilegir skýjakljúfar umhverfis hann. Lýðræði í landinu er ekki hafið yfir gagnrýni, en orðið hafa þar örar framfarir og Aserbaídsjan er það múslimaríki, sem virðist hafa mestan áhuga á góðum samskiptum við Vesturlönd. Landið stendur á mörkum Evrópu og Asíu og hefur verið óralengi í byggð. Það á í hörðum deilum við grannríkið Armeníu um héraðið Nagorno-Karabak, sem liggur í Aserbaídsjan, en er að nokkru leyti byggt Armenum. Aserar tala mál, sem er svo líkt tyrknesku að þeir eiga ekki í neinum erfiðleikum með að tala við Tyrki.

Á málstofu um menntamál benti ég á, að menntun væri ekki hið sama og skólaganga og að það væri ekkert náttúrulögmál, að ríki ræki skóla, þótt það yrði að sjá um, að allir nytu skólagöngu. Í barna- og unglingaskólum ætti aðallega að kenna þau vinnubrögð, sem að gagni kæmu í lífsbaráttunni, lestur, skrift, reikning og færni í meðferð gagna, og þau gildi, sem sameinuðu þjóðina, þjóðtunguna og þjóðarsöguna. Þegar lengra kæmi, ætti líka að leggja áherslu á þá almennu menntun, sem Þjóðverjar kalla „Bildung“ og felst í þekkingu á öðrum tímum og öðrum stöðum. Þekking væri vissulega eftirsóknarverð í sjálfri sér og ekki aðeins vegna notagildis. Vísindin væru frjáls samkeppni hugmynda.

Ég lét í ljós áhyggjur af þróuninni í vestrænum háskólum, þar sem vinstri sinnar hefðu víða náð undirtökum og vildu breyta þessari frjálsu samkeppni hugmynda í skipulagða hugmyndaframleiðslu gegn kapítalisma og „feðraveldi“ undir merkjum pólitísks rétttrúnaðar. Allir ættu að skilgreinast af hópum og vera einhvers konar fórnarlömb. Ekki væri minnst á þann möguleika, að einstaklingarnir öxluðu sjálfir ábyrgð á gerðum sínum og kenndu ekki öðrum um, ef illa færi, jafnframt því sem þeir nytu þess sjálfir (en ekki skattheimtumenn), þegar betur færi.

Ég taldi skóla verða að koma til skila tveimur merkilegum uppgötvunum Adams Smiths: Eins gróði þarf ekki að vera annars tap, og atvinnulífið getur verið skipulegt án þess að vera skipulagt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. júní 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir