Laugardagur 30.06.2018 - 11:58 - Rita ummæli

Stolt þarf ekki að vera hroki

Þótt enskan sé auðug að orðum, enda samruni tveggja mála, engilsaxnesku og frönsku, á hún aðeins eitt og sama orðið, „pride“, um tvö hugtök, sem íslenskan hefur eins og vera ber um tvö orð, stolt og hroka. Þess vegna er sagt á ensku, að „pride“ sé ein af höfuðsyndunum sjö. Íslendingar myndu ekki segja það um stolt, sem hefur jákvæðan blæ, þótt þeir myndu vissulega telja hroka vera synd.

Ég minnist á þetta vegna þess, að íslenska þjóðin fylltist stolti vegna frábærs árangurs landsliðsins í knattspyrnu síðustu tvö árin. Íslendingar eru fámennasta þjóð, sem keppt hefur til úrslita í heimsmótinu í knattspyrnu. En hvers vegna fylltumst „við“ stolti? Vegna þess, að okkur finnst við eiga eitthvað örlítið í sigurgöngu íslenska landsliðsins. Þótt liðsmennirnir, þjálfararnir og aðrir hlutaðeigendur hafi vissulega unnið sigrana, en ekki við hin, deilum við öll með þeim einhverju sérstöku, kunnuglegu og dýrmætu, þótt það sé ekki beinlínis áþreifanlegt: Þjóðerni.

Spekingar fræða okkur á því, að þjóðernisvitund sé mannasetning frá nítjándu öld. Hvað sem öðrum líður, á það ekki við um Íslendinga. Við höfum frá öndverðu verið sérstök þjóð. Snemma á elleftu öld var Sighvatur Þórðarson skáld staddur í Svíþjóð, og hafði kona ein orð á því, að hann væri svarteygur ólíkt mörgum Svíum. Orti þá Sighvatur, að hin íslensku augu sín hefðu vísað sér langt um „brattan stíg“. Enn kvað hann, að hann hefði gengið „á fornar brautir“, sem ókunnar væru viðmælandanum. Um svipað leyti, árið 1033, gerðu Íslendingar fyrsta alþjóðasamning sinn, og var hann við Noregskonung.

Spekingar vara okkur líka við hroka. En stolt er ekki hroki og þjóðrækni ekki þjóðremba. Um eitt minnir lífið á knattspyrnuleik: Stundum hittum við í mark og stundum fram hjá, öðru hvorum megin. Fyrir bankahrunið 2008 gætti nokkurs hroka með sumum Íslendingum, en eftir það virtust sumir vilja miða fram hjá markinu hinum megin og gera minna úr þjóðinni en efni standa til. Við hittum í mark með því að vera þjóðræknir heimsborgarar, stolt af þjóð okkar án lítilsvirðingar við aðra, hvorki hrokagikkir né undirlægjur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir