Laugardagur 28.07.2018 - 09:51 - Rita ummæli

Þarf prófessorinn að kynnast sjálfum sér?

Á Apollón-hofinu í Delfí er ein áletrunin tilvitnun í Sólon lagasmið, Kynnstu sjálfum þér. Þetta var eitt af heilræðum vitringanna sjö í Forn-Grikklandi. Ég er hræddur um, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, hafi lítt skeytt um slík sjálfskynni. Hann skrifar andsvar í tímaritið Econ Watch við ritgerð eftir mig um stjórnarstefnuna 1991–2004. Þar segist hann ólíkt mér aldrei hafa verið „active in any political-party advocacy“, aldrei hafa verið virkur í starfi stjórnmálaflokks.

Í Alþýðublaðinu 18. janúar 1983 segir á hinn bóginn, að í stjórn nýstofnaðs Bandalags jafnaðarmanna sitji meðal annarra Stefán Ólafsson félagsfræðingur. Bandalagið bauð fram 1983, en sameinaðist Alþýðuflokknum 1986. Í Þjóðviljanum 8. febrúar 1985 segir, að stofnað hafi verið Málfundafélag félagshyggjufólks, sem hafi það markmið að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Einn af varamönnum í stjórn sé Stefán Ólafsson félagsfræðingur.

Nú kann vel að vera, að Stefán hafi hvergi verið flokksbundinn, eftir að Bandalag jafnaðarmanna geispaði golunni. En hann tók virkan þátt í kosningabaráttu Samfylkingarinnar árin 2003 og 2007. Í fyrra skiptið var eitt aðalkosningamál Samfylkingarinnar, að fátækt væri meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og vitnaði Stefán óspart um það, meðal annars í Morgunblaðsgrein 7. maí. Þetta reyndist úr lausu lofti gripið samkvæmt mælingum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í seinna skiptið hélt Stefán því fram í fjölda greina og fyrirlestra, að tekjudreifingin hefði árin 1995–2004 orðið miklu ójafnari en á öðrum Norðurlöndum. Vísuðu frambjóðendur Samfylkingarinnar margsinnis á hann um þetta. En það reyndist líka rangt: Árið 2004 var tekjudreifing svipuð á Íslandi og öðrum Norðurlöndum samkvæmt mælingum Eurostat.

Ef marka má dagbók Össurar Skarphéðinssonar frá 2012, Ár drekans, þá var Stefán virkur um það leyti í innanflokksátökum Samfylkingarinnar, með Jóhönnu Sigurðardóttur og á móti Árna Páli Árnasyni.

Ef til vill á hér best við breyting, sem þýska skopblaðið Simplicissimus vildi gera á hinu gríska heilræði: Kynnstu ekki sjálfum þér! Þú verður alltaf svo illa svikinn!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júlí 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir