Á Apollón-hofinu í Delfí er ein áletrunin tilvitnun í Sólon lagasmið, Kynnstu sjálfum þér. Þetta var eitt af heilræðum vitringanna sjö í Forn-Grikklandi. Ég er hræddur um, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, hafi lítt skeytt um slík sjálfskynni. Hann skrifar andsvar í tímaritið Econ Watch við ritgerð eftir mig um stjórnarstefnuna 1991–2004. Þar segist hann ólíkt mér aldrei hafa verið „active in any political-party advocacy“, aldrei hafa verið virkur í starfi stjórnmálaflokks.
Í Alþýðublaðinu 18. janúar 1983 segir á hinn bóginn, að í stjórn nýstofnaðs Bandalags jafnaðarmanna sitji meðal annarra Stefán Ólafsson félagsfræðingur. Bandalagið bauð fram 1983, en sameinaðist Alþýðuflokknum 1986. Í Þjóðviljanum 8. febrúar 1985 segir, að stofnað hafi verið Málfundafélag félagshyggjufólks, sem hafi það markmið að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Einn af varamönnum í stjórn sé Stefán Ólafsson félagsfræðingur.
Nú kann vel að vera, að Stefán hafi hvergi verið flokksbundinn, eftir að Bandalag jafnaðarmanna geispaði golunni. En hann tók virkan þátt í kosningabaráttu Samfylkingarinnar árin 2003 og 2007. Í fyrra skiptið var eitt aðalkosningamál Samfylkingarinnar, að fátækt væri meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og vitnaði Stefán óspart um það, meðal annars í Morgunblaðsgrein 7. maí. Þetta reyndist úr lausu lofti gripið samkvæmt mælingum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í seinna skiptið hélt Stefán því fram í fjölda greina og fyrirlestra, að tekjudreifingin hefði árin 1995–2004 orðið miklu ójafnari en á öðrum Norðurlöndum. Vísuðu frambjóðendur Samfylkingarinnar margsinnis á hann um þetta. En það reyndist líka rangt: Árið 2004 var tekjudreifing svipuð á Íslandi og öðrum Norðurlöndum samkvæmt mælingum Eurostat.
Ef marka má dagbók Össurar Skarphéðinssonar frá 2012, Ár drekans, þá var Stefán virkur um það leyti í innanflokksátökum Samfylkingarinnar, með Jóhönnu Sigurðardóttur og á móti Árna Páli Árnasyni.
Ef til vill á hér best við breyting, sem þýska skopblaðið Simplicissimus vildi gera á hinu gríska heilræði: Kynnstu ekki sjálfum þér! Þú verður alltaf svo illa svikinn!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júlí 2018.)
Rita ummæli