Laugardagur 01.09.2018 - 09:17 - Rita ummæli

Leynifundur hjá Hrunmangarafélaginu

Eftir bankahrunið reyndu ýmsir þeir, sem höfðu að eigin dómi lítt notið sín áður, að gera sér mat úr því, ekki síst með því að níða niður landa sína erlendis. Í þessum hópi, sem ég hef kallað hrunmangara hefur mjög borið á prófessorunum Þorvaldi Gylfasyni og Stefáni Ólafssyni. Ég sé ekki betur en þeim hafi nýlega bæst nokkur liðsauki. Hann er prófessor Gylfi Zoëga, sem skipulagði tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu nú á fimmtudag og föstudag um fjármálakreppuna 2007-9 og bankahrunið á Íslandi, þar sem þeir Þorvaldur og Stefán töluðu báðir. Var ráðstefnan lokuð öðrum en sérvöldu fólki úr Háskólanum og Seðlabankanum.

Hrunmangarafélagið á það hins vegar sameiginlegt með Hörmangarafélaginu á átjándu öld, að það selur skemmda vöru. Í skrifum þeirra Þorvaldar og Stefáns á erlendri grund morar allt í villum. Til dæmis kveður Þorvaldur Framsóknarflokkinn hafa fengið þingmeirihluta 1927 og Stefán segir Íslendinga hafa losnað undan nýlenduáþján Dana 1945.

Sumt er þó beinar rangfærslur frekar en meinlausar villur. Þorvaldur segir Seðlabankann til dæmis ekki hafa beitt sér gegn gjaldeyrislánum til einstaklinga þvert á gögn, sem sýna, að bankinn varaði margsinnis og sterklega við þeim. Og Stefán kveður Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu að seðlabankastjórarnir þrír hafi sýnt af sér alvarlega vanrækslu þótt í skýrslu nefndarinnar sé aðeins talað um vanrækslu.

Raunar má geta þess að Rannsóknarnefndin talaði (sjá 8. bindi skýrslu hennar, 21. kafla) um vanrækslu í skilningi laga nr. 142/2008, en þau voru lögin, sem samþykkt voru um nefndina eftir bankahrunið. Það hefur hingað til verið talin ein mikilvægasta regla réttarríkisins að lög séu ekki afturvirk. En þeir sem kynnu að telja á sér brotið með þessari afturvirkni eiga væntanlega engra kosta völ því að Rannsóknarnefndin lét samþykkja sérstök lög um það 2009 að hún nyti friðhelgi gegn málshöfðunum. Fleiri loka dyrum en Hrunmangarafélagið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir