Laugardagur 08.09.2018 - 09:37 - Rita ummæli

Gylfi veit sínu viti

Dagana 30.-31. ágúst skipulagði Gylfi Zoëga prófessor ráðstefnu í Háskóla Íslands um bankahrunið 2008 með ýmsum kunnum erlendum fyrirlesurum og nokkrum íslenskum, þar á meðal þeim Þorvaldi Gylfasyni, Stefáni Ólafssyni og Guðrúnu Johnsen. Þótt Gylfi fengi styrki til ráðstefnunnar frá Háskólanum og Seðlabankanum var hún lokuð og á hana aðeins boðið sérvöldu fólki. Íslendingarnir sem töluðu á ráðstefnunni voru nánast allir úr Hrunmangarafélaginu, sem svo er kallað, en í það skipa sér þeir íslensku menntamenn sem líta á bankahrunið sem tækifæri til að skrifa og tala erlendis eins og Íslendingar séu mestu flón í heimi og eftir því spilltir.

Þegar að er gáð var þó sennilega skynsamlegt af Gylfa Zoëga að hafa ráðstefnuna lokaða. Það var aldrei að vita upp á hverju sumir íslensku fyrirlesararnir hefðu getað tekið í ræðustól. Þorvaldur Gylfason hefur til dæmis látið að því liggja á Snjáldru (Facebook) að þeir Nixon og Bush eldri hafi átt aðild að morðinu á Kennedy Bandaríkjaforseta 1963 og að eitthvað hafi verið annarlegt við hrun að minnsta kosti eins turnsins í Nýju Jórvík eftir hryðjuverkin haustið 2001. Ein athugasemd Þorvaldar er líka fleyg: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“

Einnig kann að hafa verið skynsamlegt af Gylfa Zoëga að velja aðallega Íslendinga úr Hrunmangarafélaginu til að tala á ráðstefnunni. Þegar hann kemur sjálfur fram við hliðina á þessu æsta og orðljóta fólki, sem hrindir venjulegum áheyrendum frá sér með öfgum, virðist hann í samanburðinum vera dæmigerður fræðimaður, hófsamur og gætinn. Var leikurinn ef til vill til þess gerður?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir