Laugardagur 15.09.2018 - 04:06 - Rita ummæli

Þórbergur um nasistasöng

Guðmundur G. Hagalín sagði eitt sinn, að Þórbergur Þórðarson hefði verið þjóðfífl Íslendinga, ekki þjóðskáld. Hafði Hagalín eflaust í huga ýmis afglöp Þórbergs, til dæmis þegar hann kvaðst eftir árás Hitlers á Pólland 1. september 1939 skyldu hengja sig, ef Stalín réðist líka á Pólland. Eftir að Stalín réðst á Pólland 17. september, varð Þórbergur að landsviðundri. Ég leiðrétti í bókinni Íslenskum kommúnistum 1918-1998 ýmsar missagnir Þórbergs.

Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifaði í Skírni 2015 ritgerð um kvæðið „Marsinn til Kreml“, sem Þórbergur orti til höfuðs Hannesi Péturssyni, eftir að nafni minn hafði leyft sér að birta í Stúdentablaðinu 1956 ljóð gegn Kremlverjum, sem þá höfðu nýlega barið niður uppreisn í Ungverjalandi. Í ritgerð sinni minntist Soffía Auður á, að Þórbergur tilfærði í kvæði sínu tvö vísuorð úr Horst Wessel söng þýskra þjóðernisjafnaðarmanna: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt/denn geht uns nochmals so gut“. Neðanmáls í kvæði sínu þýddi Þórbergur þau svo: Þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur.

Þótt Soffía Auður leiðrétti í ritgerð sinni nafnið á varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem Þórbergur fór rangt með í kvæðinu, lét hún þess ógetið, að vera á „vom“ en ekki „von“ í fyrra vísuorðinu, eins og allt þýskumælandi fólk sér á augabragði. Það er þó smáatriði í samanburði við þann mikla annmarka, sem farið hefur fram hjá Soffíu Auði og ritrýnendum Skírnis, að þessi ógeðfelldu vísuorð eru alls ekki úr Horst Wessel söngnum, sem er prentaður í prýðilegri þýðingu Böðvars Guðmundssonar í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2015. Þau eru úr „Sturmlied“, sem SA-sveitir þjóðernisjafnaðarmanna kyrjuðu iðulega á þrammi sínu um þýskar borgir á fjórða áratug. Þetta hergönguljóð var andgyðinglegt tilbrigði við þýskan byltingarsöng frá 1848, Heckerlied.

Vísuorðin tvö koma meðal annars fyrir í áhrifamikilli og læsilegri sjálfsævisögu Richards Krebs, sem var flugumaður Alþjóðasambands kommúnista og skrifaði undir dulnefninu Jan Valtin. Hún nefndist á íslensku Úr álögum og kom út í tveimur bindum 1941 og 1944, og endurútgaf ég hana með formála og skýringum 2016.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. september 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir