Guðmundur G. Hagalín sagði eitt sinn, að Þórbergur Þórðarson hefði verið þjóðfífl Íslendinga, ekki þjóðskáld. Hafði Hagalín eflaust í huga ýmis afglöp Þórbergs, til dæmis þegar hann kvaðst eftir árás Hitlers á Pólland 1. september 1939 skyldu hengja sig, ef Stalín réðist líka á Pólland. Eftir að Stalín réðst á Pólland 17. september, varð Þórbergur að landsviðundri. Ég leiðrétti í bókinni Íslenskum kommúnistum 1918-1998 ýmsar missagnir Þórbergs.
Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur skrifaði í Skírni 2015 ritgerð um kvæðið „Marsinn til Kreml“, sem Þórbergur orti til höfuðs Hannesi Péturssyni, eftir að nafni minn hafði leyft sér að birta í Stúdentablaðinu 1956 ljóð gegn Kremlverjum, sem þá höfðu nýlega barið niður uppreisn í Ungverjalandi. Í ritgerð sinni minntist Soffía Auður á, að Þórbergur tilfærði í kvæði sínu tvö vísuorð úr Horst Wessel söng þýskra þjóðernisjafnaðarmanna: „Wenn das Judenblut von Messer spritzt/denn geht uns nochmals so gut“. Neðanmáls í kvæði sínu þýddi Þórbergur þau svo: Þegar gyðingablóðið spýtist úr hnífnum, þá gengur okkur hálfu betur.
Þótt Soffía Auður leiðrétti í ritgerð sinni nafnið á varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem Þórbergur fór rangt með í kvæðinu, lét hún þess ógetið, að vera á „vom“ en ekki „von“ í fyrra vísuorðinu, eins og allt þýskumælandi fólk sér á augabragði. Það er þó smáatriði í samanburði við þann mikla annmarka, sem farið hefur fram hjá Soffíu Auði og ritrýnendum Skírnis, að þessi ógeðfelldu vísuorð eru alls ekki úr Horst Wessel söngnum, sem er prentaður í prýðilegri þýðingu Böðvars Guðmundssonar í 2. hefti Tímarits Máls og menningar 2015. Þau eru úr „Sturmlied“, sem SA-sveitir þjóðernisjafnaðarmanna kyrjuðu iðulega á þrammi sínu um þýskar borgir á fjórða áratug. Þetta hergönguljóð var andgyðinglegt tilbrigði við þýskan byltingarsöng frá 1848, Heckerlied.
Vísuorðin tvö koma meðal annars fyrir í áhrifamikilli og læsilegri sjálfsævisögu Richards Krebs, sem var flugumaður Alþjóðasambands kommúnista og skrifaði undir dulnefninu Jan Valtin. Hún nefndist á íslensku Úr álögum og kom út í tveimur bindum 1941 og 1944, og endurútgaf ég hana með formála og skýringum 2016.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. september 2018.)
Rita ummæli