Sunnudagur 07.10.2018 - 10:48 - Rita ummæli

Bankahrunið: Svartur svanur

Í dag eru tíu ár liðin frá bankahruninu. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að það hafi verið „svartur svanur“, eins og líbanski rithöfundurinn Nassem Taleb kallar óvæntan, ófyrirsjáanlegan atburð, sem er engum að kenna, heldur orsakast af því, að margt smátt verður skyndilega eitt stórt.

Það fór saman, að sölu ríkisbankanna lauk í árslok 2002 og að þá fylltist allur heimurinn af ódýru lánsfé vegna sparnaðar í Kína og lágvaxtastefnu bandaríska seðlabankans. Jafnframt nutu íslenskir bankar hins góða orðspors, sem íslenska ríkið hafði aflað sér árin 1991-2004, svo að þeim buðust óvenjuhagstæð lánskjör erlendis. Þrennt annað lagðist á sömu sveif. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið höfðu bankarnir fengið aðgang að innri markaði Evrópu; nýir stjórnendur þeirra höfðu aldrei kynnst mótvindi og gerðu því ráð fyrir góðu veðri framvegis; og eigendur bankanna áttu langflesta fjölmiðla og bjuggu því ekki við aðhald. Afleiðingin af öllu þessu varð ör vöxtur bankanna við fagnaðarlæti þjóðarinnar. Þeir uxu langt umfram það, sem hið opinbera hafði tök á að styðja í hugsanlegum mótvindi.

En útþensla íslensku bankanna olli gremju keppinauta þeirra í Evrópu og tortryggni evrópskra seðlabankastjóra, sem töldu hana ógna innstæðutryggingum og litu óhýru auga, að íslensku bankarnir nýttu sér í útbúum á evrusvæðinu lausafjárfyrirgreiðslu Seðlabanka Evrópu eins og aðrir evrópskir bankar utan evrusvæðisins (til dæmis breskir) gerðu. Ákveðið var í fjármálakreppunni að veita Íslandi enga aðstoð. Við þetta bættist stjórnmálaþróunin í Bretlandi. Þar óttaðist Verkamannaflokkurinn uppgang skoskra þjóðernissinna, sem fjölyrtu um „velsældarboga“ frá Írlandi um Ísland til Noregs og sjálfstætt Skotland framtíðarinnar færi undir. Stjórn Verkamannaflokksins ákvað í fjármálakreppunni að loka tveimur breskum bönkum í eigu Íslendinga, á meðan hún jós fé í alla aðra banka landsins. Þetta leiddi til falls Kaupþings. Stjórnin bætti síðan gráu ofan á svart með því að beita hryðjuverkalögum að þarflausu gegn Íslendingum og siga á þá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Velsældarboginn breyttist í gjaldþrotaboga, eins og Alistair Darling orðaði það síðar.

Bandaríkjastjórn sat aðgerðalaus hjá, enda var Ísland nú ekki lengur hernaðarlega mikilvægt í hennar augum. Íslands óhamingju varð allt að vopni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. október 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir