Laugardagur 20.10.2018 - 12:00 - Rita ummæli

Hvað sagði ég á Stóru hundaeyju?

Spænska nafnið á eyjaklasanum, sem Spánn ræður skammt undan strönd Blálands hins mikla, er Canarias, en það merkir Hundaeyjar. Dagana 30. september til 5. október 2018 tók ég þátt í ráðstefnu alþjóðlegs málfundafélags frjálslyndra fræðimanna, Mont Pelerin-samtakanna, á Gran Canaria, Stóru hundaeyju. Ég tók tvisvar til máls, fyrst á morgunverðarfundi um stjórnmálaviðhorf í Rómönsku Ameríku. Sú skoðun er algeng þar syðra, að velgengni Norðurlanda sé að þakka jafnaðarstefnu. Ég vísaði því á bug. Þessa velgengni mætti aðallega skýra með traustu réttarríki, frjálsum alþjóðaviðskiptum, ríku gagnkvæmu trausti og samheldni í krafti samleitni, rótgróinna siða og langrar, sameiginlegrar sögu.

Á málstofu um aðskilnaðarhreyfingar og sjálfstæði sagði ég, að vissulega væri til frjálslynd þjóðernisstefna, sem miðaði að því að færa valdið nær fólki og reist væri á sterkri þjóðernisvitund. Norðmenn hefðu sagt skilið við Svía 1905, af því að þeir væru Norðmenn, ekki Svíar. Íslendingar hefðu ekki verið og vildu ekki vera Danir með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu þjóð, og þess vegna hefðu þeir stofnað fullvalda ríki 1918. Hins vegar þyrfti þjóðernisvitundin að dómi frjálshyggjumanna að vera sjálfsprottin frekar en valdboðin. Þjóðin skilgreindist umfram allt af vilja hóps til að deila hlutskipti. Hún væri dagleg atkvæðagreiðsla, eins og franski rithöfundurinn Ernest Renan hefði sagt. Ég vitnaði í því sambandi líka í þá athugasemd breska stjórnmálahugsuðarins Edmunds Burkes, að land þyrfti að vera elskulegt, til þess að íbúar þess gætu elskað það.

Dæmi um eðlilega og æskilega þjóðernisvitund eru Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistlendingar, Lettar og Litháar. Þeir eru ekki og vilja ekki vera Rússar. Norðurálfan er full af þjóðarbrotum, sem hafa ekki unað sér vel innan um stærri heildir. Eins og fyrri daginn væri lausn frjálshyggjumanna að færa valdið nær fólkinu. Íbúar Álandseyja hefðu nú sjálfstjórn og væru hinir ánægðustu innan Finnlands, þótt þeir töluðu sænsku. Ítalir hefðu síðustu áratugi komið svo langt til móts við íbúa Suður-Týrols, sem slitið var af Austurríki 1918, að fáir hefðu þar lengur áhuga á aðskilnaði. Þessi fordæmi kynnu að vera gagnleg Skotum og Katalóníumönnum, ef þeir vildu ekki ganga alla leið eins og Norðmenn 1905, Íslendingar 1918 og Slóvakar 1993.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. október 2018. Á myndinni er ég með dr. Barböru Kolm frá Austurríki.)

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir