Sunnudagur 28.10.2018 - 22:24 - Rita ummæli

Forsetakjör í Brasilíu

Ríkisútvarpið sendi fréttamann til Rio de Janeiro vegna forsetakjörsins nú í dag. Það er undarlegt. Brasilía er höfuðborgin og São Paulo stærsta borgin. Rio de Janeiro er hins vegar auðvitað skemmtilegasta borgin, eins og ég get trútt um talað, því að ég hef undanfarin ár búið í nokkra mánuði á ári í Rio de Janeiro og tala portúgölsku. Ég hef því haft betri skilyrði en margur annar til að fylgjast með stjórnmálum í Brasilíu. Mér blöskrar, af hvílíkri vanþekkingu talað er um þau á Íslandi, ekki síst í Ríkisútvarpinu. Eru líkur á, að Jair Bolsonaro sigri í forsetakjörinu í dag, en Fernando Haddad tapi. Aðalskýringin á því er, að Verkamannaflokkur Haddads hefur orðið uppvís að ótrúlegri spillingu. Forsetinn 2002–2010, Lula, situr í fangelsi fyrir að hafa þegið mútur. Eftirmaður hans, Dilma Rousseff, var sett úr embætti fyrir að hafa gefið rangar upplýsingar um fjármál flokks síns. Haddad heimsækir reglulega Lula í fangelsið og þiggur hjá honum ráð! Þessir menn kunna ekki að skammast sín. Varaforsetaefni hans er úr brasilíska kommúnistaflokknum. Ef Bolsonaro verður forseti, þá er það aðallega vegna þess, að menn eru að kjósa á móti Verkamannaflokknum. En aðalráðgjafi hans í efnahagsmálum er mjög skynsamur maður, Paulo Guedes. Hér segir frá því, hvaða ráð ég gaf Brasilíumönnum aðspurður í São Paulo á fjölmennri stúdentaráðstefnu á dögunum:

Hannes var spurður, hvaða ráð hann gæti gefið Brasilíumönnum. Hann svaraði því til, að svo virtist sem þrjár nornir stæðu yfir höfuðsvörðum þessarar sundurleitu, suðrænu stórþjóðar, ofbeldi, spilling og fátækt. Brasilíumenn þyrftu að reka þessar nornir á brott, einbeita sér að koma á lögum og reglu, meðal annars með því að herða refsingar fyrir ofbeldisglæpi, og þá myndi tækifærum fátæks fólks til að brjótast í bjargálnir snarfjölga. Aðkomumönnum yrði starsýnt á hina ójöfnu tekjudreifingu í landinu. Ef til vill hefði auður sumra Brasilíumanna skapast í krafti sérréttinda og óeðlilegrar aðstöðu ólíkt því, sem gerðist í frjálsari hagkerfum, en reynslan sýndi, að hinir fátæku yrðu ekki ríkari við það, að hinir ríku yrðu fátækari. Happadrýgst væri að mynda skilyrði til þess, að hinir fátæku gætu orðið ríkari, en með aukinni samkeppni, sérstaklega á fjármagnsmarkaði, myndu hinir ríku þurfa að hafa sig alla við að halda auði sínum. Eitt lögmál hins frjálsa markaðar væri, að flónið og fjármagnið yrðu fljótt viðskila. Skriffinnska stæði líka brasilískum smáfyrirtækjum fyrir þrifum.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir