Miðvikudagur 07.11.2018 - 08:49 - Rita ummæli

Í köldu stríði

Árið 2014 sendi Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, frá sér bókina Í köldu stríði, þar sem hann sagði frá baráttu sinni og Morgunblaðsins í kalda stríðinu, sem hófst, þegar vestræn lýðræðisríki ákváðu að veita kommúnistaríkjunum í Mið- og Austur-Evrópu viðnám. Íslendingar gengu þá til liðs við aðrar frjálsar þjóðir, sem mynduðu með sér varnarbandalag, Atlantshafsbandalagið. En hér starfaði líka Sósíalistaflokkur, sem þáði verulegt fé frá Moskvu og barðist fyrir hagsmunum Kremlverja. Hélt hann úti dagblaðinu Þjóðviljanum og átti talsverðar húseignir í Reykjavík.

Styrmir hafði njósnara í Sósíalistaflokknum, sem gaf honum skýrslur. Ein skýrslan hefur ekki vakið þá athygli sem skyldi (bls. 123). Hún er frá janúar 1962. Segir þar frá fundi í einni sellu Sósíalistaflokksins, þar sem ónafngreindur námsmaður í Austur-Þýskalandi talaði, og geri ég ráð fyrir, að hann hafi verið Guðmundur Ágústsson, sem seinna varð formaður Alþýðubandalagsfélags Reykjavíkur.

„Skýrði hann frá því að hann stundaði nám við skóla þar sem kennd væri pólitík og njósnir en hann mun hafa annað nám að yfirvarpi. Rétt er að geta þess að áður en [Guðmundur] byrjaði að tala spurði hann deildarformann, hvort ekki væri óhætt að tala opinskátt. Formaður hélt það nú vera. [Guðmundur] skýrði einnig frá því, að í fyrra hefði ekki verið nægilegt fé fyrir hendi til þess að standa straum af kostnaði við þá Íslendinga sem dveldust í Austur-Þýskalandi á vegum flokksins hér og þess vegna hefðu verið tekin inn á fjárlög austurþýska ríkisins (þó ekki þannig, að beinlínis hafi komið fram) 180 þúsund austurþýsk mörk til þess að standa straum af útgjöldum íslenska kommúnistaflokksins í Austur-Þýskalandi.“ Enn segir í skýrslunni: „Þá sagði [Guðmundur], að meðal kommúnista í Austur-Evrópu ríki mikil ánægja með Þjóðviljann, sem talið væri eitt besta blað kommúnista á Vesturlöndum.“

Það er merkilegt, að sósíalistarnir á sellufundinum virðast hafa látið sér vel líka uppljóstranir námsmannsins unga. Ekki er síður fróðlegt, að kommúnistar í Austur-Evrópu skyldu hafa talið Þjóðviljann „besta blað kommúnista á Vesturlöndum“.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir