Laugardagur 10.11.2018 - 16:13 - Rita ummæli

11. nóvember 1918

Á sunnudag eru hundrað ár liðin frá því að fulltrúar Þýskalands, Frakklands og Bretlands undirrituðu samning um vopnahlé í Compiègne-skógi í Norður-Frakklandi. Norðurálfuófriðnum mikla, sem staðið hafði frá hausti 1914, var lokið eftir óskaplegar mannfórnir. Áður en stríðið skall á, hafði verið friður í álfunni í heila öld. Menn gátu ferðast án vegabréfa um álfuna þvera og endilanga nema til Rússaveldis og Tyrkjaveldis. Ríkisvaldið virtist þá vera lítið annað en vingjarnlegur lögregluþjónn á næsta götuhorni. Allt þetta breyttist í ófriðnum. Mannkynið virtist heillum horfið. „Mér blæddi inn,“ sagði ungur, íslenskur rithöfundur, sem getið hafði sér orð í Danmörku, Gunnar Gunnarsson.

Segja má, að til séu tvær hugmyndir um söguna. Hún sé eins og drukkin könguló, sem flækist milli þráða í neti sínu, eða eins og járnbrautarlest, sem renni á teinum frá einum stað á annan. Fyrri hugmyndin virðist eiga vel við um Norðurálfuófriðinn mikla. Hann var stórslys, alls ekki óhjákvæmilegur. Kveikjan að honum var, að 28. júní 1914 myrtu serbneskir þjóðernissinnar ríkisarfa Austurríkis og konu hans í Sarajevo, sennilega að undirlagi serbnesku leyniþjónustunnar. Banatilræðið hefði ekki þurft að takast. Margt hefði getað komið í veg fyrir það.

Vissulega þráðu Frakkar hefnd eftir ósigur sinn fyrir Þjóðverjum 1871 og stukku á fyrsta tækifærið. Ef til vill voru Rússar líka svo skuldbundnir Serbum, að þeir urðu að liðsinna þeim, þegar Austurríki og bandamenn þess vildu hefna morðsins á ríkisarfanum. En hvers vegna í ósköpunum fór Stóra-Bretland í stríðið? Það voru reginmistök. Ef einhver svarar því til, að Bretar hafi verið skuldbundnir Belgíu (sem Þjóðverjar réðust á í sókn sinni til Frakklands), þá má benda á, að Bretar voru líka skuldbundnir Póllandi 1939 og sögðu Ráðstjórnarríkjunum þó ekki stríð á hendur, þegar Rauði herinn réðst inn í Pólland 17. september. Hefðu Bretar ekki farið í stríðið 1914, þá hefðu miðveldin, Austurríki og bandamenn þess, ekki verið lengi að sigra Frakka og Rússa. Stríðið hefði orðið stutt. Þess í stað var það ekki til lykta leitt, fyrr en Bandaríkjamenn gerðu sömu mistök og Bretar á undan þeim og fóru í stríðið. Afleiðingarnar urðu alræði kommúnista og nasista í Rússlandi og Þýskalandi. Vorið 1940 voru aðeins sex lýðræðisríki eftir í Norðurálfunni, Stóra-Bretland, Írland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og áttu undir högg að sækja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. nóvember 2018.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir