Mánudagur 18.02.2019 - 17:20 - Rita ummæli

Rawls og Piketty

Tveir kunnustu hugsuðir jafnaðarstefnu okkar daga eru bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem gaf út Kenningu um réttlæti (A Theory of Justice) árið 1971, og franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, sem gaf út Fjármagn á tuttugustu og fyrstu öld (Capital in the Twenty-First Century) árið 2014. Ég lagði það á mig fyrir skömmu vegna verkefnis, sem ég hafði tekið að mér erlendis, að lesa aftur hin hnausþykku verk þeirra. Bók Rawls er 607 blaðsíður og Pikettys 793. Mér fannst í senn fróðlegt og skemmtilegt að endurnýja kynni mín af þessum verkum og tók eftir mörgu, sem farið hafði fram hjá mér áður. Mig langar í nokkrum fróðleiksmolum að deila ýmsum athugasemdum mínum með lesendum.

Rawls og Piketty gera báðir ráð fyrir frjálsum markaði, en hvorugur sættir sig við þá tekjudreifingu, sem sprettur upp úr frjálsum viðskiptum, vegna þess að hún verði ójöfn. Rawls setur fram hugvitsamlega kenningu. Hún er um, hvað skynsamir menn með eigin hag að leiðarljósi, en án vitneskju um eigin stöðu (til dæmis um áskapaða hæfileika sína, stétt eða kyn), muni semja um, eigi þeir að setja réttlátu ríki reglur. Rawls leiðir rök að því, að þeir muni semja um tvær frumreglur. Hin fyrri kveði á um jafnt og fullt frelsi allra borgaranna, en hin seinni á um jöfnuð lífsgæða, þar sem tekjumunur réttlætist af því einu, að tekjur hinna verst settu verði sem mestar. Með öðrum orðum sættir Rawls sig við ójafna tekjudreifingu upp að því marki, að hún verði hinum fátækustu líka í hag.

Fyrri reglan, um jafnt og fullt frelsi allra borgara, tekur til kosningarréttar, málfrelsis, fundafrelsis og trúfrelsis, en ekki til atvinnufrelsis. Rök Rawls fyrir því eru, að nú á dögum sé svo mikið til af efnislegum gæðum, að þau séu mönnum ekki eins mikilvæg og ýmis frelsisréttindi. Þetta má auðvitað gagnrýna, því að hér virðist Rawls vera að lauma eigin sjónarmiðum inn í niðurstöðuna, sem samningamennirnir um framtíðina eiga að komast að. Önnur andmæli blasa líka strax við. Kenning Rawls er í rauninni ekki um réttlæti, heldur um hyggindi, sem í hag koma. Hann telur, að mennirnir á stofnþingi stjórnmála muni frekar hugsa um að verja sig gegn versta kosti en vonast eftir hinum besta. Þess vegna muni þeir reyna að tryggja sem best hag hinna verst settu. Þeir viti ekki nema þeir lendi í þeim hópi sjálfir. Þetta er auðvitað ekki óskynsamleg hugsun, en hún snertir lítt réttlæti, eins og það hefur venjulega verið skilið á Vesturlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. febrúar 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir