Sunnudagur 29.09.2019 - 15:17 - Rita ummæli

Utanríkisstefna Hannesar, Ólafs og Snorra

Jón Þorláksson lýsti viðhorfi samstarfsmanns síns, Hannesar Hafsteins ráðherra, til utanríkismála svo í Óðni 1923, að „hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga þeirra fyrir að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni“. Hannes var Danavinur, hvorki Danasleikja né Danahatari.

Að breyttu breytanda fylgdi Ólafur Thors sams konar stefnu, eins og Þór Whitehead prófessor skrifaði um í Skírni 1976: Ólafur vildi verja fullveldi þjóðarinnar eins og frekast væri samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi Bandaríkjamanna, sem veitt gátu Íslendingum ómetanlegan stuðning. Honum og Bjarna Benediktssyni tókst vel að feta það þrönga einstigi eftir síðari heimsstyrjöld. Þeir voru Bandaríkjavinir, hvorki Bandaríkjasleikjur né Bandaríkjahatarar.

Þriðji stjórnmálamaðurinn í þessum anda var Snorri Sturluson. Hann hafði verið lögsögumaður frá 1215 til 1218, en fór þá til Noregs til að koma í veg fyrir hugsanlega árás Norðmanna á Ísland, en þeir Hákon konungur og Skúli jarl voru Íslendingum þá ævareiðir vegna átaka við norska kaupmenn. Jafnframt vildi Snorri endurvekja þann íslenska sið að afla sér fjár og frægðar með því að yrkja konungum lof. Honum tókst ætlunarverk sitt, afstýrði innrás og gerðist lendur maður konungs (barón).

Snorri hefur eflaust sagt Hákoni og Skúla hina táknrænu sögu af því, þegar Haraldur blátönn hætti við árás á Ísland, eftir að sendimaður hans hafði sér til hrellingar kynnst landvættum, en hana skráði Snorri í Heimskringlu. Og í ræðu þeirri, sem hann lagði Einari Þveræingi í munn, kemur fram sams konar hugsun og hjá Hannesi og Ólafi: Verum vinir Noregskonungs, ekki þegnar hans eða þý. Við þetta sætti konungur sig hins vegar ekki, og var Snorri veginn að ráði hans 1241.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir