Snorri Sturluson var frjálslyndur íhaldsmaður, eins og við myndum kalla það. Fimm helstu stjórnmálahugmyndir hans getur að líta í Heimskringlu og Eglu.
Hin fyrsta er, að konungsvald sé ekki af náð Guðs, heldur með samþykki alþýðu. Haraldur hárfagri lagði að vísu Noreg undir sig með hernaði og sló síðan eign sinni á allar jarðir, en sonur hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, bað bændur að taka sig til konungs og hét þeim á móti að skila þeim jörðum. Síðari konungar þurftu að fara sama bónarveg að alþýðu.
Önnur hugmyndin er, að með samþykkinu sé kominn á sáttmáli konungs og alþýðu, og ef konungur rýfur hann, þá má alþýða rísa upp gegn honum. Þetta sést best á frægri ræðu Þórgnýs lögmanns gegn Svíakonungi, en einnig á lýsingu Snorra á sinnaskiptum Magnúsar góða.
Hin þriðja er, að konungar séu misjafnir. Góðu konungarnir eru friðsamir og virða landslög. Vondu konungarnir leggja á þunga skatta til að geta stundað hernað. Þetta sést ekki aðeins á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra, heldur líka á mannjöfnuði Sigurðar Jórsalafara og Eysteins og raunar miklu víðar í Heimskringlu og ekki síður í Eglu.
Af þeirri staðreynd, að konungar séu misjafnir, dregur Snorri þá ályktun, sem hann leggur í munn Einari Þveræingi, að best sé að hafa engan konung. Íslendingar miðalda deildu þeirri merkilegu hugmynd aðeins með einni annarri Evrópuþjóð, Svisslendingum.
Fimmta stjórnmálahugmundin er í rökréttu framhaldi af því. „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á.“ Íslendingar skuli vera vinir Noregskonungs, flytja honum drápur og skrifa um hann sögur, en þeir skuli ekki vera þegnar hans í sama skilningi og Norðmenn.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2019.)
Rita ummæli