Laugardagur 12.10.2019 - 07:41 - Rita ummæli

Hvers vegna skrifaði Snorri?

Eftir Snorra Sturluson liggja þrjú meistaraverk, Edda, Heimskringla og Egla. En hvað rak hann til að setja þessar bækur saman? Hann varð snemma einn auðugasti maður Íslands og lögsögumaður 1215–1218 og 1222-1231. Hann hafði því í ýmsu öðru að snúast.

Snorri var skáldmæltur og hefur eflaust ort af innri þörf. En ég tek undir með prófessor Kevin Wanner, sem hefur skrifað um það bókina Snorri Sturluson and the Edda, að einföld skýring sé til á því, hvers vegna hann setti Eddu saman. Íslendingar höfðu smám saman öðlast einokun á sérstæðri vöru: lofkvæðum um konunga. Þessari einokun var ógnað, þegar norrænir konungar virtust fyrir suðræn áhrif vera að missa áhugann á slíkum lofkvæðum. Snorri samdi Eddu til að endurvekja áhugann á þessari bókmenntagrein og sýna þeim Hákoni Noregskonungi og Skúla jarli, hvers skáld væru megnug. Þeir kunnu raunar vel að meta framtak hans og gerðu hann að lendum manni, barón, í utanför hans 1218–1220.

Svipuð skýring á eflaust að einhverju leyti við um, hvers vegna Snorri samdi Heimskringlu á árunum 1220–1237. En fleira bar til. Íslendingar voru í hæfilegri fjarlægð til að geta skrifað um Noregskonunga. Þótt Snorri gætti sín á að styggja ekki konung, má lesa út úr verkinu tortryggni á konungsvald og stuðning við þá fornu hugmynd, að slíkt vald sé ekki af Guðs náð, heldur með samþykki alþýðu. Með þjóðsögunni um landvættirnar varaði Snorri konung við innrás, og í ræðu Einars Þveræings hélt hann því fram, að best væri að hafa engan konung.

Tortryggnin á konungsvald er enn rammari í Eglu, sem er beinlínis um mannskæðar deilur framættar Snorra við norsku konungsættina. Egill Skallagrímsson stígur þar líka fram sem sjálfstæður og sérkennilegur einstaklingur, eins og Sigurður Nordal lýsir í Íslenskri menningu. Hann er ekki laufblað á grein, sem feykja má til, heldur með eigin svip, skap, tilfinningalíf. Líklega hefur Snorri samið Eglu eftir síðari utanför sína 1237–1239, en þá hafði konungur snúist gegn honum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir