Laugardagur 19.10.2019 - 12:24 - Rita ummæli

Hinn kosturinn 1262

Almennt er talið, að Íslendingar hafi ekki átt annars úrkosta árið 1262 en játast Noregskonungi og gjalda honum skatt gegn því, að hann friðaði landið, tryggði aðflutninga og virti lög og landssið. En er þessi skoðun óyggjandi? Því má ekki gleyma, að Íslendingar voru mjög tregir til, ekki síst af þeirri ástæðu, sem Snorri Sturluson lagði Einari Þveræingi í munn, að konungar væru ætíð frekir til fjárins.

Hvers vegna hefði Þjóðveldið ekki getað staðist án atbeina konungs? Þeim vísi að borgarastríði, sem hér mátti greina um miðja 13. öld, hefði ella lokið með sigri einhvers höfðingjans eða málamiðlun tveggja eða fleiri þeirra. Samgöngur voru komnar í það horf, að Íslendingar hefðu getað verslað við Skota, Englendinga eða Hansakaupmenn ekki síður en kaupmenn í Björgvin. Tvennt gerðist síðan skömmu eftir lok Þjóðveldisins, sem hefði hugsanlega rennt traustari stoðum undir það: Hinn ásælni og harðskeytti Hákon gamli lést í herför til Suðureyja árið 1263, og markaðir stækkuðu víða í Norðurálfunni fyrir íslenska skreið. Það hefði ekki verið Noregskonungi áhlaupsverk að senda flota yfir Atlantsála til að hernema landið, og enn erfiðara hefði verið að halda því gegn vilja landsmanna.

Vilhjálmur kardínáli af Sabína sagði þóttafullur árið 1247, að það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“. Að vísu var athugasemd hans einkennileg, því að sjálfur hafði kardínálinn röskum tveimur áratugum áður verið fulltrúi páfa í löndum við Eystrasalt, sem voru ekki undir stjórn neins konungs, heldur þýskrar riddarareglu. Og eitt land í Norðurálfunni laut þá sem nú ekki neinum konungi: Sviss. Saga þess kann að veita vísbendingu um mögulega þróun Íslands. Árið 1291 stofnuðu þrjár fátækar fjallakantónur, Uri, Schwyz og Unterwalden, svissneska bandaríkið, Eidgenossenschaft, og smám saman fjölgaði kantónum í því, þótt það kostaði hvað eftir annað hörð átök, uns komið var til sögunnar Sviss nútímans, sem þykir til fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti, auk þess sem það er eitt auðugasta land heims.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2019. Málverkið er af Eiðsbræðrunum þremur 1291.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir