Almennt er talið, að Íslendingar hafi ekki átt annars úrkosta árið 1262 en játast Noregskonungi og gjalda honum skatt gegn því, að hann friðaði landið, tryggði aðflutninga og virti lög og landssið. En er þessi skoðun óyggjandi? Því má ekki gleyma, að Íslendingar voru mjög tregir til, ekki síst af þeirri ástæðu, sem Snorri Sturluson lagði Einari Þveræingi í munn, að konungar væru ætíð frekir til fjárins.
Hvers vegna hefði Þjóðveldið ekki getað staðist án atbeina konungs? Þeim vísi að borgarastríði, sem hér mátti greina um miðja 13. öld, hefði ella lokið með sigri einhvers höfðingjans eða málamiðlun tveggja eða fleiri þeirra. Samgöngur voru komnar í það horf, að Íslendingar hefðu getað verslað við Skota, Englendinga eða Hansakaupmenn ekki síður en kaupmenn í Björgvin. Tvennt gerðist síðan skömmu eftir lok Þjóðveldisins, sem hefði hugsanlega rennt traustari stoðum undir það: Hinn ásælni og harðskeytti Hákon gamli lést í herför til Suðureyja árið 1263, og markaðir stækkuðu víða í Norðurálfunni fyrir íslenska skreið. Það hefði ekki verið Noregskonungi áhlaupsverk að senda flota yfir Atlantsála til að hernema landið, og enn erfiðara hefði verið að halda því gegn vilja landsmanna.
Vilhjálmur kardínáli af Sabína sagði þóttafullur árið 1247, að það væri „ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni“. Að vísu var athugasemd hans einkennileg, því að sjálfur hafði kardínálinn röskum tveimur áratugum áður verið fulltrúi páfa í löndum við Eystrasalt, sem voru ekki undir stjórn neins konungs, heldur þýskrar riddarareglu. Og eitt land í Norðurálfunni laut þá sem nú ekki neinum konungi: Sviss. Saga þess kann að veita vísbendingu um mögulega þróun Íslands. Árið 1291 stofnuðu þrjár fátækar fjallakantónur, Uri, Schwyz og Unterwalden, svissneska bandaríkið, Eidgenossenschaft, og smám saman fjölgaði kantónum í því, þótt það kostaði hvað eftir annað hörð átök, uns komið var til sögunnar Sviss nútímans, sem þykir til fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti, auk þess sem það er eitt auðugasta land heims.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2019. Málverkið er af Eiðsbræðrunum þremur 1291.)
Rita ummæli