Laugardagur 26.10.2019 - 17:51 - Rita ummæli

Sturla gegn Snorra

Snorri Sturluson hefur ekki notið sannmælis, því að andstæðingur hans (og náfrændi), Sturla Þórðarson, var oftast einn til frásagnar um ævi hans og störf. Sturla fylgdi Noregskonungi að málum og virðist hafa verið sannfærður um, að Íslendingum væri best borgið undir stjórn hans. Íslendinga saga hans var um land, sem vart fékk staðist sökum innanlandsófriðar, og í Hákonar sögu Hákonarsonar dró höfundur upp mynd af góðum konungi, sem ekkert gerði rangt.

Snorri hafði aðra afstöðu. Samúð hans var með friðsælum og hófsömum stjórnendum frekar en herskáum og fégjörnum, eins og sést til dæmis á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra og Orkneyjarjarlanna tveggja, Brúsa og Einars, í Heimskringlu. Snorri hagaði hins vegar jafnan orðum sínum hyggilega, svo að lesa þarf á milli lína í lýsingu hans á Ólöfunum tveimur, Tryggvasyni og Haraldssyni, sem boðuðu kristni og nutu þess vegna hylli kirkjunnar. Sagði hann undanbragðalaust frá ýmsum grimmdarverkum þeirra, svo að sú ályktun Einars Þveræings á Alþingi árið 1024 blasti við, að best væri að hafa engan konung.

Á þrettándu öld rákust jafnframt á tvær hugmyndir um lög, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor hefur greint ágætlega. Hin forna, sem Snorri aðhylltist, var, að lög væru sammæli borgaranna um þær reglur, sem ýmist afstýrðu átökum milli þeirra eða jöfnuðu slík átök. Þetta voru hin „gömlu, góðu lög“, og þau voru umfram allt hemill valdbeitingar. Nýja hugmyndin var hins vegar, að lög væru fyrirmæli konungs, sem þegið hefði vald sitt frá Guði, en ekki mönnum, og beitt gæti valdi til að framfylgja þeim. Þegar sendimaður Noregskonungs, Loðinn Leppur, brást á Alþingi árið 1280 hinn reiðasti við, að „búkarlar“ gerðu sig digra og vildu ekki treysta á náð konungs, var hann að skírskota til hins nýja skilnings á lögum.

Og enn rekast hugmyndir Snorra og Sturlu á.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2019. Myndin er af Sigurði Líndal.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir