Laugardagur 02.11.2019 - 14:33 - Rita ummæli

Missagnir um Snorra

Undanfarnar vikur hef ég sökkt mér niður í rit eftir og um Snorra Sturluson og þá rekist á tvær þrálátar missagnir. Önnur er, að hann hafi í utanför sinni til Noregs og Svíþjóðar 1218–1220 heitið þeim Hákoni Hákonarsyni konungi og Skúla Bárðarsyni jarli að koma Íslandi undir Noregskonung. Þetta er gefið í skyn í ritum Sturlu Þórðarsonar, en Sturla var mjög blendinn í afstöðu sinni til Snorra frænda síns og ekki traust heimild. Hann reyndi jafnan að gera hlut Hákonar konungs sem bestan, enda launaður sagnritari hans. Það, sem Snorri hefur heitið hinum norsku valdsmönnum og efnt, var að tryggja norskum kaupmönnum frið á Íslandi, en hann var lögsögumaður 1222–1231.

Afstaða Snorra í utanríkismálum blasir við af Heimskringlu, sem hann skrifaði eftir fyrri utanförina: Íslendingar skyldu vera vinir Noregskonungs, ekki þegnar. Bókin er samfelld áminning um, að konungar séu misjafnir, sumir góðir og aðrir vondir, og því sé Íslendingum best að hafa engan konung. Það villir sumum lesendum sýn, að Snorri lætur þessa skoðun ekki beint í ljós sjálfur, heldur leyfir staðreyndunum að tala. En þessi afstaða hans kostaði hann að lokum lífið, þótt Sturla sagnritari hafi reyni að koma ábyrgðinni á vígi hans á Gissur Þorvaldsson, ekki Hákon konung.

Hin missögnin er, að ósamræmi sé milli tveggja verka Snorra. Hann sé vinveittur konungum í Heimskringlu, en fjandsamlegur þeim í Eglu. Þetta er auðvitað ekki réttur úrlestur úr Heimskringlu, en vissulega hafði Snorri enn ríkari fyrirvara á konungum í Eglu, enda var hún bersýnilega skrifuð, eftir að slitnað hafði í sundur með honum og Hákoni konungi, þegar hann sneri í banni konungs heim til Íslands úr síðari utanför sinni 1237–1239.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir