Laugardagur 16.11.2019 - 07:22 - Rita ummæli

Frá Kænugarði

Dagana 7.–10. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu og helguð sambandi Úkraínu við önnur Evrópulönd. Ég var beðinn um að segja nokkur orð á ráðstefnunni, og benti ég fyrst á, að Ísland og Úkraína væru mjög ólík lönd, en bæði þó á útjaðri Evrópu. Ég kvað eðlilegt, að Úkraínumenn hefðu viljað stofnað eigið ríki. Þeir væru sérstök þjóð, þótt þeim hefði löngum verið stjórnað frá Moskvu. Norðmenn hefðu skilið við Svía 1905 og Íslendingar við Dani 1918 af sömu ástæðu.

Í ræðu minni rakti ég, hvernig stækkun markaða með auknum alþjóðaviðskiptum auðveldaði smækkun ríkja: Litlar þjóðir með opin hagkerfi gætu notið góðs af hinni alþjóðlegu verkaskiptingu á heimsmarkaðnum. Því stærri sem markaðurinn væri, því minni gætu ríkin orðin, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á seinna helmingi tuttugustu aldar.

Nú er Úkraína auðvitað engin smásmíði. En landið er samt tiltölulega lítið í samanburði við Rússland, sem nýlega hefur lagt undir sig vænan hluta landsins með hervaldi. Vandi tiltölulega lítilla ríkja með stóra og ásælna granna væri takmarkaður hernaðarmáttur. Að sumu leyti mætti leysa slíkan vanda með bandalögum eins og gert hefði verið með Atlantshafsbandalaginu. En sú lausn væri ekki alltaf í boði, og til væri önnur: að reyna að breyta Rússlandi innan frá. Með því væri ekki átt við, að landinu væri brugguð einhver launráð, heldur að Úkraína veitti með öflugu atvinnulífi og örum framförum svo gott fordæmi, að Rússar tækju upp betri siði. Þjóðirnar eru náskyldar og ættu að vera vinir.

Það fór til dæmis ekki fram hjá kínverskum kommúnistum, hversu örar framfarir urðu eftir miðja tuttugustu öld í öðrum kínverskum hagkerfum, í Hong Kong og á Singapúr og Taívan. Danir og Svíar hefðu á liðnum öldum barist hvorir við aðra, en nú væri stríð milli þessara norræna þjóða allt að því óhugsandi. Vonandi rynni slíkur dagur upp í samskiptum Úkraínumanna og Rússa.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir