Dagana 13.–14. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu í Vínarborg um austurrísku hagfræðihefðina, sem Carl Menger var upphafsmaður að, en innan hennar störfuðu einnig Eugen von Böhm-Bawerk, einn skarpskyggnasti gagnrýnandi marxismans, Ludwig von Mises og Friedrich A. Hayek. Ég var beðinn um að flytja erindi á ráðstefnunni, og skoðaði ég hugmyndatengsl Mengers og Hayeks. Menger velti því fyrir sér, hvernig ýmsar hagkvæmar og heilladrjúgar venjur og stofnanir hefðu getað orðið til án þess að vera ætlunarverk eins né neins. Nefndi hann í því sambandi peninga, venjurétt, markaði og ríkið. Hayek gerði síðan hugtakið sjálfsprottið skipulag að þungamiðju í kenningu sinni: Margt getur skapast án þess að vera skapað; regla getur komist á, án þess að nokkur hafi komið henni á; skipulag krefst ekki alltaf skipuleggjanda.
Þeir Menger og Hayek drógu báðir þá ályktun, að sósíalismi hvíldi á hugsunarvillu. Sósíalistar skildu ekki hugtakið sjálfsprottið skipulag. Þeir teldu, að allt hlyti að vera ætlunarverk einhvers, ekki afleiðing flókinnar þróunar, víxlverkunar vitunda. Þess vegna vildu sósíalistar endurskapa skipulagið, þótt það hefði að vísu endað með ósköpum í Þýskalandi Hitlers, Rússlandi Stalíns og Kína Maós. Þjóðernissósíalistar kenndu gyðingum um böl heimsins, en aðrir sósíalistar auðvaldinu. Angi af þessari hugsun er að líta á tekjudreifingu í frjálsu hagkerfi sem ætlunarverk í stað þess að átta sig á því, að hún er niðurstaða úr óteljandi ákvörðunum einstaklinga.
Þeir Menger og Hayek voru líka sammála um, að einstaklingsbundinni skynsemi væru takmörk sett. Aðalatriðið væri ekki að reyna að stýra þróuninni, heldur að ryðja úr vegi hindrunum fyrir henni, svo að hún gæti orðið frjáls. Þeir voru þess vegna í senn íhaldssamir og frjálslyndir. Íhaldssemi þeirra birtist í virðingu fyrir arfhelgum siðum og venjum, sem auðvelduðu gagnkvæma aðlögun einstaklinga. Frjálslyndi þeirra kom hins vegar fram í stuðningi þeirra við virka samkeppni á markaði, sem miðlaði þekkingu og aflaði nýrrar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. nóvember 2019.)
Rita ummæli