Laugardagur 16.05.2020 - 09:47 - Rita ummæli

Þveræingar og Nefjólfssynir

Allt frá árinu 1024 hefur mátt skipta Íslendingum í Þveræinga og Nefjólfssyni. Þetta ár sendi Ólafur digri Noregskonungur íslenskan hirðmann sinn, Þórarin Nefjólfsson, til landsins í því skyni að auka hér ítök sín. Mælti Þórarinn fagurlega um kosti konungs á Alþingi. Einar Þveræingur svaraði því til, að Ólafur digri kynni að vera kostum prýddur. Hitt vissu menn þó, að konungar væru misjafnir, sumir góðir og aðrir ekki, og væri því best að hafa engan konung. Íslendingar skyldu vera vinir konungs, ekki þegnar.

Snorri Sturluson, sem færði þessa ræðu í letur, var með henni að segja hug sinn. Hann vildi ekki gangast undir yfirráð Noregskonungs, en halda þó vináttu við Norðmenn. Eins sagði Jón Þorláksson í minningarorðum um Hannes Hafstein, að stefna hans í utanríkismálum hefði verið að afla þjóðinni þess fyllsta sjálfstæðis, sem farið gæti saman við gott samstarf við Dani, ekki síst um fjárfestingar á Íslandi. Þeir Snorri, Hannes og Jón voru allir Þveræingar.

Í sjálfstæðisbaráttunni bar lítt á Nefjólfssonum. En upp úr 1930 kom til sögu hópur, sem talaði um Stalín af sömu hrifningu og Þórarinn forðum um Ólaf digra, enda hafði hópurinn þegið gull úr hendi hins austræna harðstjóra eins og Þórarinn mála forðum af konungi. Þeir Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson áttu tíðar ferðir í sendiráð Ráðstjórnarríkjanna við Túngötu til að sækja fé, sem raunar virðist ekki hafa skilað sér í fjárhirslur flokks þeirra, blaðs eða bókafélags. Þeir voru sannkallaðir Nefjólfssynir.

Í Icesave-deilunni 2008–2013 mátti greina sömu skiptingu. Við Þveræingar vildum virða allar skuldbindingar Íslendinga við erlendar þjóðir, en töldum íslensku þjóðina ekki þurfa að taka ábyrgð á viðskiptum einkaaðila erlendis. Þótt kostað hefði stórfé, vildu Nefjólfssynir, þar á meðal flestir samkennarar mínir, hins vegar ólmir þóknast ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins, sem hafði farið fram af óbilgirni í garð Íslendinga. Sem betur fer sigruðum við Þveræingar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. maí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir