Í Aldarsögu Háskóla Íslands er kafli eftir Guðmund Hálfdanarson prófessor um dósentsmálið 1937. Ráðherra skipaði Sigurð Einarsson dósent í guðfræði, þótt dómnefnd hefði mælt með öðrum. Hafði ráðherrann sent einum virtasta guðfræðingi Norðurlanda úrlausnir allra umsækjenda og sá talið Sigurð bera af og raunar einan hæfan. Kveður Guðmundur ekkert benda til, að sérfræðingurinn hafi vitað, hvaða umsækjandi átti hvaða úrlausn. Líklega hefur dómnefnd verið vilhöll, enda var vitað fyrir, að hún vildi ekki Sigurð. Hér virðist ráðherra hafa leiðrétt ranglæti.
Liðu nú rösk fimmtíu ár. Lektorsmálið 1988 snerist um það, að þrír menn sóttu um stöðu í stjórnmálafræði. Einn hafði lokið doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla, en hvorugur hinna hafði lokið slíku prófi. Formaður dómnefndar var Svanur Kristjánsson, en vitað var fyrir, að hann vildi alls ekki doktorinn frá Oxford. Mælti dómnefnd Svans með öðrum umsækjanda og taldi þann, sem lokið hafði doktorsprófi, aðeins hæfan að hluta. Ráðherra þótti þetta undarlegt og óskaði eftir greinargerðum frá tveimur kennurum doktorsins, kunnum fræðimönnum á alþjóðavettvangi, og sendu þeir báðir álitsgerðir um, að vitanlega væri hann hæfur til að gegna slíkri lektorsstöðu, og var hann að bragði skipaður. Mér er málið skylt, þar eð ég átti í hlut, en hér virðist ráðherra hafa leiðrétt ranglæti Svans. Hinir umsækjendurnir tveir kærðu skipunina til Umboðsmanns Alþingis, en hann vísaði málatilbúnaði þeirra á bug.
Þegar ég settist í stöðu mína, varð ég þess var, að Svanur beitti öllum ráðum til að troða konu sinni í kennslu í stjórnmálafræði. Var hún nálægt því að vera í fullu starfi án auglýsingar. Þegar loks var tekið á þessu og starf auglýst, sem hún fékk síðan ekki, lagði Svanur fæð á þá, sem að því stóðu, og hætti að heilsa þeim. Ég horfði hissa á úr fjarlægð.
Lærdómurinn er, að til eru stofnanaklíkur ekki síður en stjórnmálaklíkur, og þær velja ekki alltaf hæfustu mennina. Fjórða dæmið er nýtt. Sænskur maður lét af ritstjórastarfi norræns tímarits. Það var verkefni norrænu fjármálaráðherranna að velja í sameiningu eftirmann hans. En Svíinn hafði samband við íslenskan klíkubróður, Þorvald Gylfason, og virðist hafa lofað honum starfinu. Þegar ekki varð úr því, brást Þorvaldur ókvæða við, en hann hefur þann sið að kalla menn nasista, ef þeir klappa ekki fyrir klíku hans.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júní 2020. Myndin er af séra Sigurði Einarssyni.)
Rita ummæli