Laugardagur 27.06.2020 - 05:55 - Rita ummæli

Frelsi Loka ekki síður en Þórs

Almannaveitur upplýsinga, eins og óhætt er að kalla Facebook, Twitter og Amazon, eru teknar upp á því ritskoða fólk, vegna þess að það er talið hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir, þótt ekki sé að vísu alltaf full samkvæmni í þeirri ritskoðun. Full ástæða er til að spyrna hér við fótum. Frelsið er líka frelsi til að hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Um þetta orti gamli Grundtvig:

Frihed lad være vort Løsen i Nord,
Frihed for Loke saavel som for Thor.

Frelsið sé lausnin í Norðri: frelsi Loka ekki síður en Þórs. Loki var sem kunnugt er blendið goð, slægviturt, en illgjarnt. Þór var hins vegar hreinn ás og beinn.

Til dæmis hefur einn samkennari minn, Þorvaldur Gylfason, látið að því liggja á Facebook, að þeir Richard Nixon og George H. W. Bush hafi verið viðriðnir morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta. Hann hefur á sama vettvangi sagt hæpið, að Stórhýsið 7 World Trade Center við Tvíburaturnana í New York hafi hrunið vegna elda í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001, en ýmsar samsæriskenningar eru á kreiki um, að það hafi verið sprengt upp. Ég tel þessar kenningar fráleitar, en frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að halda þeim fram.

Þorvaldur hefur enn fremur skrifað á Facebook: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“ Auðvitað er þessi samlíking hans ógeðfelld og til þess fallin að gera lítið úr hinni hræðilegu Helför. En frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að komast ósmekklega að orði.

Við bönnum ekki áfengið út af rónanum, þótt við ráðum hann vitanlega ekki til að afgreiða í vínbúð. Og við tökum ekki málfrelsið af fólki, þótt sumir láti í ljós fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Við erum ekki að samþykkja þessar skoðanir með því að umbera þær eða þola. Virða ber frelsi Loka ekki síður en Þórs.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júní 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir