Almannaveitur upplýsinga, eins og óhætt er að kalla Facebook, Twitter og Amazon, eru teknar upp á því ritskoða fólk, vegna þess að það er talið hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir, þótt ekki sé að vísu alltaf full samkvæmni í þeirri ritskoðun. Full ástæða er til að spyrna hér við fótum. Frelsið er líka frelsi til að hafa fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Um þetta orti gamli Grundtvig:
Frihed for Loke saavel som for Thor.
Frelsið sé lausnin í Norðri: frelsi Loka ekki síður en Þórs. Loki var sem kunnugt er blendið goð, slægviturt, en illgjarnt. Þór var hins vegar hreinn ás og beinn.
Til dæmis hefur einn samkennari minn, Þorvaldur Gylfason, látið að því liggja á Facebook, að þeir Richard Nixon og George H. W. Bush hafi verið viðriðnir morðið á Kennedy Bandaríkjaforseta. Hann hefur á sama vettvangi sagt hæpið, að Stórhýsið 7 World Trade Center við Tvíburaturnana í New York hafi hrunið vegna elda í hryðjuverkaárásinni 11. september 2001, en ýmsar samsæriskenningar eru á kreiki um, að það hafi verið sprengt upp. Ég tel þessar kenningar fráleitar, en frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að halda þeim fram.
Þorvaldur hefur enn fremur skrifað á Facebook: „Sjálfstæðismenn sem tala um lýðræði orka nú orðið á mig eins og nasistar að auglýsa gasgrill.“ Auðvitað er þessi samlíking hans ógeðfelld og til þess fallin að gera lítið úr hinni hræðilegu Helför. En frelsið er líka frelsi Þorvaldar til að komast ósmekklega að orði.
Við bönnum ekki áfengið út af rónanum, þótt við ráðum hann vitanlega ekki til að afgreiða í vínbúð. Og við tökum ekki málfrelsið af fólki, þótt sumir láti í ljós fráleitar eða ógeðfelldar skoðanir. Við erum ekki að samþykkja þessar skoðanir með því að umbera þær eða þola. Virða ber frelsi Loka ekki síður en Þórs.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júní 2020.)
Rita ummæli