Laugardagur 04.07.2020 - 08:48 - Rita ummæli

Ný aðför að Snorra Sturlusyni

Rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson skrifar 2. júlí 2020 færslu á Snjáldru, Facebook, um nýlegt myndband frá Knattspyrnusambandi Íslands: „Mér finnst nú heldur mikið í lagt í nýju KSÍ-auglýsingunni að láta líf þjóðarinnar í þúsund ár snúast um að verjast grimmum innrásarherjum, og nota til þess heilaspunann úr Snorra Sturlusyni um ófreskjur sem magnaðar voru að hans sögn upp gegn útsendara Haraldar Gormssonar, og urðu svo löngu síðar að táknmyndum landsfjórðunganna undir heitinu „landvættir“. Þetta er í grundvallaratriðum röng sýn.“

Hér toga tröllin í Brüssel rithöfundinum orð úr tungu. Sagan af landvættunum í Heimskringlu er ein haglegasta smíði Snorra og hefur djúpa merkingu. Snorri hefur sagt Hákoni konungi og Skúla jarli hana í fyrri Noregsför sinni 1218–1220, en þá varð hann að telja þá af því að senda herskip til Íslands í því skyni að hefna fyrir norska kaupmenn, sem leiknir höfðu verið grátt. Snorri gerði þetta að sið skálda, óbeint, með sögu, alveg eins og Sighvatur Þórðarson hafði (einmitt að sögn Snorra) ort Bersöglismál til að vanda um fyrir Magnúsi konungi Ólafssyni án þess að móðga hann.

Saga Snorra hefst á því, að Haraldur blátönn Danakonungur slær eign sinni á íslenskt skip, og þeir taka í lög á móti, að yrkja skuli um hann eina níðvísu fyrir hvert nef á landinu. Konungur reiðist og sendir njósnara til Íslands í því skyni að undirbúa herför. Sendiboðinn sér landvættirnar og skilar því til konungs, að landið sé lítt árennilegt. Auðvitað var Snorri að segja þeim Hákoni og Skúla tvennt: Geri þeir innrás, eins og þeir höfðu í huga, þá muni Íslendingar nota það vopn, sem þeir kunnu best að beita, orðið. Skæð sé skálda hefnd. Og erfitt væri að halda landinu gegn andstöðu íbúanna, en landvættirnar eru í sögunni fulltrúar þeirra.

Skúli og Hákon skildu það, sem Snorri var óbeint að segja þeim, og hættu við herför til Íslands. Það er hins vegar ótrúlegt að sjá íslenskan rithöfund höggva á þennan hátt til Snorra. Eigi skal höggva.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. júlí 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir