Þess var minnst í gær, að hálf öld er liðin frá andláti Bjarna Benediktssonar. Hér vil ég vekja athygli á tveimur verkum Bjarna, sem hljótt hefur verið um, en varða bæði hið erfiða viðfangsefni, sem hann og samtímamenn hans stóðu frammi fyrir, að reisa og treysta íslenskt ríki, eftir að okkar fámenna þjóð fékk fullveldi 1. desember 1918, en líklega urðu þá einhver mestu tímamót í Íslandssögunni.
Um miðjan mars 1949 var Bjarni utanríkisráðherra og staddur í Washington til að kynna sér Atlantshafssáttmálann, sem þá var í undirbúningi. Íslendingar höfðu eytt öllum sínum gjaldeyrisforða úr stríðinu í nýsköpunina, og höfðu verið tekin upp ströng innflutnings- og gjaldeyrishöft. Bjarni velti eins og fleiri forystumenn Sjálfstæðisflokksins fyrir sér, hvort einhverjar leiðir væru færar til að auka viðskiptafrelsi. Honum var bent á, að í Washington-borg starfaði hálærður íslenskur hagfræðingur, dr. Benjamín Eiríksson. Hann gerði boð eftir Benjamín, og sátu þeir lengi dags á herbergi Bjarna á gistihúsi, og útlistaði þar Benjamín, hvernig mynda mætti jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Að ráði Bjarna var Benjamín síðan kallaður heim, og hann samdi ásamt Ólafi Björnssyni prófessor rækilega áætlun um afnám hafta, sem hrundið var í framkvæmd í tveimur áföngum árin 1950 og 1960. Voru það heillaspor.
Bjarni var jafnframt dómsmálaráðherra, og hafði hann sett Sigurjón Sigurðsson lögfræðing lögreglustjóra í Reykjavík í ágúst 1947 og skipað hann í embættið í febrúar 1948, aðeins rösklega 32 ára að aldri. Hinn ungi lögreglustjóri reyndist röggsamur embættismaður, með afbrigðum þagmælskur og gætinn, enda fréttist aldrei neitt af lögreglunni undir hans stjórn. Tekið var með festu á því, þegar kommúnistar ætluðu að hleypa upp þingfundi 30. mars 1949 og koma í veg fyrir afgreiðslu tillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, en eftir það gátu þeir ekki gert sér vonir um að hrifsa hér völd með ofbeldi.
Ríki á það sameiginlegt með traustu virki, að það þarf ekki aðeins að vera rammlega hlaðið, heldur líka vel mannað.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. júlí 2020.)
Rita ummæli