Hér í blaðinu hef ég bent á, að sumir kunnustu heimspekingar sögunnar hafa minnst á Íslendinga. Rousseau sagði, að íslenskir námsmenn í Kaupmannahöfn yndu sér þar svo illa, að þeir ýmist vesluðust upp og gæfu upp öndina eða drukknuðu í sjó, þegar þeir ætluðu að synda aftur heim til Íslands. Marx og Engels völdu Íslendingum hin verstu orð. Þeir væru ruddar og sóðar og ættu ekkert gott skilið frekar en aðrar afdalaþjóðir Evrópu.
Einn kunnasti heimspekingur tuttugustu aldar, Karl R. Popper, minntist líka á Íslendinga á einum stað í bókum sínum. Hann var að andmæla hugmyndinni um þjóðríki. Eina dæmið, sem honum gæti hugkvæmst um, að sami hópur deildi sögu, tungu, landi og ríki, væri Ísland. Popper bætti þó við, að Atlantshafið skildi Ísland frá öðrum löndum og að Íslendingar sæju ekki sjálfir um landvarnir, heldur treystu á samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins. Ísland væri þess vegna ekki eins skýr undantekning frá reglunni og virtist fljótt á litið vera.
Þegar ég heimsótti Popper 31. janúar 1985 í Penn í Buckinghamshire til þess að ræða við hann um heimsins böl og bölvabætur, spurði hann mig brosandi, hvort ég hefði tekið eftir þessum ummælum. Já, ég hafði gert það. Hann sagði mér þá, að hann og kona hans hefðu á námsárum sínum í Vínarborg laust fyrir 1930 haft mikinn áhuga á Íslandi. Sérstaklega hefðu þau hrifist af því, að Íslendingar skyldu hafa fundið Vesturheim, en um leið hefðu þau velt því mjög fyrir sér, hvers vegna byggð norrænna manna á Grænlandi skyldi hafa lagst niður.
Fundur Vesturheims var auðvitað sérstakt afrek, eins og Popper benti á. En gátan um byggðina í Grænlandi er enn óleyst, þótt mér finnist líklegast, að síðustu íbúarnir hafi ýmist fallið fyrir Inúítum (sem fornmenn kölluðu Skrælingja) eða hrakist til Íslands og blandast þar þjóðinni. Ef til vill eiga vísindamenn okkar eftir að ráða þessa gátu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. ágúst 2020.)
Rita ummæli