Laugardagur 12.09.2020 - 07:45 - Rita ummæli

Kaldar kveðjur

Í Íslendinga sögum eru þrír löðrungar sögulegir. Auður Vésteinsdóttir tók fé það, sem reynt var að bera á hana, til að hún segði til manns síns, og rak í nasir Eyjólfs hins gráa. „Skaltu það muna, vesall maður, meðan þú lifir að kona hefur barið þig.“ Þorvaldi Halldórssyni, fyrsta manni Guðrúnar Ósvífursdóttur, sinnaðist svo við hana sakir eyðslusemi hennar, að hann rak henni kinnhest. „Nú gafstu mér það er oss konum þykir miklu skipta að vér eigum vel að gert en það er litaraft gott,“ sagði hún. Gunnar á Hlíðarenda missti eitt sinn stjórn á sér, eftir að kona hans, Hallgerður Langbrók, hafði látið stela mat, og löðrungaði hana. Þegar hann löngu síðar bað um lokk úr hári hennar til að nota í bogastreng, þá er óvinir hans sóttu að honum, sagði hún: „Þá skal ég nú muna þér kinnhestinn og hirði eg aldrei hvort þú verð þig lengur eða skemur.“

Frægasti löðrungurinn eftir það var sá, sem Hermann Jónasson forsætisráðherra veitti Brynjólfi Bjarnasyni, foringja íslenskra kommúnista, í ráðherraherberginu í Alþingishúsinu 14. mars 1940, eftir að þeim hafði orðið sundurorða um vetrarstríðið finnska, en Stalín hafði ráðist á Finna nokkrum mánuðum áður, og studdi Brynjólfur Stalín ólíkt flestum Íslendingum. Svo sem við var að búast, hafði Þjóðviljinn, málgagn kommúnista (sem nú kölluðu sig sósíalista) hin verstu orð um Hermann.

Í nýútkominni bók Kjartans Ólafssonar um íslensku sósíalistahreyfinguna er rifjað upp, að á flokksþingi Sósíalistaflokksins í nóvember 1966 var hart deilt um, hvort leggja ætti flokkinn niður og gera Alþýðubandalagið (sem verið hafði kosningabandalag) að stjórnmálaflokki. Brynjólfur Bjarnason var því andvígur, en varð undir. Kjartan hafði haft forystu um málið, en hann segir í bókinni, að hann hafi verið á leið út í lok þingsins, þegar Brynjólfur hafi gengið upp að honum og rekið honum löðrung (bls. 455). Raunar bætir Kjartan því við, að hann hafi tvisvar séð hinn aðalforingja íslenskra sósíalista, Einar Olgeirsson, slá til manna, þegar hann reiddist. Við hin hljótum að þakka okkar sæla fyrir að hafa aldrei verið í flokki með þessum mönnum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. september 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir