Þriðjudagur 22.09.2020 - 08:14 - Rita ummæli

Stórlæti að fornu og nýju

Guðmundur Finnbogason landsbókavörður benti á það fyrir löngu, að verulegur samhljómur væri með siðfræðikenningu Aristótelesar og boðskap Hávamála. Kristján Kristjánsson heimspekiprófessor hefur tekið upp þennan þráð í nokkrum fróðlegum ritgerðum. Kristján hefur sérstaklega rætt um dygðina stórlæti, sem Aristóteles lýsir í Siðfræði Níkomakkosar. Í íslenskri þýðingu Siðfræðinnar eftir Svavar Hrafn Svavarsson er þessi dygð kölluð „mikillæti“ og sagt af nokkurri lítisvirðingu, að hún stangist á við siðferðishugmyndir okkar daga. Ég tel þýðingu Svavars Hrafns hæpna, enda á henni neikvæður blær. Mikillæti er annað nafn á drambi. Dygð Aristótelesar var hins vegar fólgin í því, að maður væri stór í sniðum, vissi af því og væri fús til að viðurkenna það. Hún væri meðalhófsdygð, en á öðrum jaðrinum væri yfirlæti og á hinum vanmetakennd.

Eins og Guðmundur og Kristján benda á, var stórlæti mikils metið á Íslandi að fornu, en andstæðu þess var lýst í Hávamálum: Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma. Ég er hins vegar ósammála Svavari Hrafni um, að stórmenni eða afburðamenn séu ekki lengur til, þótt ef til vill tali þeir ekki allir djúpri röddu eða stígi þungt til jarðar, eins og Aristóteles lýsti þeim. Sumir bregða stórum svip yfir lítið hverfi. Bestu dæmin að fornu um stórlæti eru tvær landnámskonur. Auður djúpúðga fór við tuttugusta mann til bróður síns Helga, en hann bauð henni og helmingi liðs hennar vetrarvist. Hún hvarf frá hin reiðasta og fór til annars bróður síns, Björns, sem bauð þeim öllum til sín, enda vissi hann af veglyndi systur sinnar. Steinunn hin gamla fór til frænda síns Ingólfs Arnarsonar, sem vildi gefa henni Rosmhvalanes. Hún vildi kaupa jörðina, en ekki þiggja, og gaf fyrir heklu flekkótta.

Í skáldsögum Ayns Rands, Uppsprettunni og Undirstöðunni, eru hetjurnar stórlátar í skilningi Aristótelesar og Forn-Íslendinga. Howard Roark lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum. John Galt neitar að vera þræll múgsins. Hank Rearden vill uppskera eins og hann sáir. Hvarvetna eru til menn, sem geta orðið afburðamenn. En þar eru líka til menn, sem vilja verða afætur. Skáldsögur Rands eru um afburðamenn, sem vinna fyrir sjálfa sig, ekki afæturnar. Stórlæti er ekki úrelt dygð.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir