Guðmundur Finnbogason landsbókavörður benti á það fyrir löngu, að verulegur samhljómur væri með siðfræðikenningu Aristótelesar og boðskap Hávamála. Kristján Kristjánsson heimspekiprófessor hefur tekið upp þennan þráð í nokkrum fróðlegum ritgerðum. Kristján hefur sérstaklega rætt um dygðina stórlæti, sem Aristóteles lýsir í Siðfræði Níkomakkosar. Í íslenskri þýðingu Siðfræðinnar eftir Svavar Hrafn Svavarsson er þessi dygð kölluð „mikillæti“ og sagt af nokkurri lítisvirðingu, að hún stangist á við siðferðishugmyndir okkar daga. Ég tel þýðingu Svavars Hrafns hæpna, enda á henni neikvæður blær. Mikillæti er annað nafn á drambi. Dygð Aristótelesar var hins vegar fólgin í því, að maður væri stór í sniðum, vissi af því og væri fús til að viðurkenna það. Hún væri meðalhófsdygð, en á öðrum jaðrinum væri yfirlæti og á hinum vanmetakennd.
Eins og Guðmundur og Kristján benda á, var stórlæti mikils metið á Íslandi að fornu, en andstæðu þess var lýst í Hávamálum: Lítilla sanda, lítilla sæva, lítil eru geð guma. Ég er hins vegar ósammála Svavari Hrafni um, að stórmenni eða afburðamenn séu ekki lengur til, þótt ef til vill tali þeir ekki allir djúpri röddu eða stígi þungt til jarðar, eins og Aristóteles lýsti þeim. Sumir bregða stórum svip yfir lítið hverfi. Bestu dæmin að fornu um stórlæti eru tvær landnámskonur. Auður djúpúðga fór við tuttugusta mann til bróður síns Helga, en hann bauð henni og helmingi liðs hennar vetrarvist. Hún hvarf frá hin reiðasta og fór til annars bróður síns, Björns, sem bauð þeim öllum til sín, enda vissi hann af veglyndi systur sinnar. Steinunn hin gamla fór til frænda síns Ingólfs Arnarsonar, sem vildi gefa henni Rosmhvalanes. Hún vildi kaupa jörðina, en ekki þiggja, og gaf fyrir heklu flekkótta.
Í skáldsögum Ayns Rands, Uppsprettunni og Undirstöðunni, eru hetjurnar stórlátar í skilningi Aristótelesar og Forn-Íslendinga. Howard Roark lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum. John Galt neitar að vera þræll múgsins. Hank Rearden vill uppskera eins og hann sáir. Hvarvetna eru til menn, sem geta orðið afburðamenn. En þar eru líka til menn, sem vilja verða afætur. Skáldsögur Rands eru um afburðamenn, sem vinna fyrir sjálfa sig, ekki afæturnar. Stórlæti er ekki úrelt dygð.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. september 2020.)
Rita ummæli