Laugardagur 26.09.2020 - 07:58 - Rita ummæli

Ljónið í Luzern

Í grúski mínu í ritum þeirra Karls Marx og Friðriks Engels tók ég eftir því, að þar er á einum stað minnst á íslenska myndhöggvarann Bertel Thorvaldsen. Það er í grein eftir Engels frá því í nóvember 1847 um svissneska borgarastríðið. Engels hafði ekkert gott að segja um Svisslendinga, sem væru frumstæð fjallaþjóð og legðu ætíð afturhaldsöflum lið. Væri þeim helst saman að jafna við Norðmenn, sem líka væru þröngsýn útkjálkaþjóð.

Enn fremur sagði Engels: „Menn skyldu ekki ætla, að þessir málaliðar væru taldir úrhrak þjóða sinna eða að þeim væri afneitað af löndum sínum. Hafa íbúar Luzern ekki fengið hinn rétttrúaða Íslending Thorvaldsen til að að höggva í klett við borgarhliðið stórt ljón? Það er sært spjóti, en verndar til hinstu stundar liljuprýddan skjöld Bourbon-ættarinnar með loppu sinni, og á þetta á vera til minningar um hina föllnu Svisslendinga 10. ágúst 1792 við Louvre! Á þennan veg heiðrar svissneska bandalagið hina fölu þjónustulund sona sinna. Það lifir á því að selja menn og heldur það hátíðlegt.“

Tvær villur eru að vísu í frásögn Engels. Thorvaldsen gerði ekki sjálfur hina frægu höggmynd í klett við Luzern, heldur var það Lukas Ahorn, sem hjó hana í bergið eftir uppdrætti Thorvaldsens. Og svissnesku hermennirnir féllu ekki í bardaga um Louvre-höll 1792, heldur þegar Parísarmúgurinn réðst á Tuileries-höll, þar sem franska konungsfjölskyldan hafðist þá við. Lágu um sex hundruð Svisslendingar í valnum, er yfir lauk. Í sveit franskra þjóðvarðliða, sem einnig vörðu konungshöllina, var Hervé de Tocqueville, faðir hins fræga rithöfundar Alexis, sem greindi Frönsku stjórnarbyltinguna af skarpskyggni, og var Hervé einn fárra, sem komust lífs af. Konungsfjölskyldan leitaði skjóls hjá Löggjafarsamkomunni, en það reyndist ekki traustara en svo, að konungur var hálshöggvinn í janúar 1793 og  drottning í oktober. Margir hafa lýst minnismerkinu í Luzern, þar á meðal bandaríski rithöfundurinn Mark Twain, enski sagnfræðingurinn Thomas Carlyle og heimspekingurinn Ágúst H. Bjarnason, sem var á ferð um Sviss árið 1902, en frásögn hans birtist í Sumarblaðinu 1917.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. september 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir