Furðu sætir, að í öllum umræðunum um lýðveldisstjórnarskrána, sem samþykkt var með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944, hefur ekkert verið minnst á eina grein hagfræðinnar, stjórnarskrárhagfræði (constitutional economics), sem spratt upp úr rannsóknum James M. Buchanans og annarra hagfræðinga á almannavali í samanburði við einkaval. Er meira að segja haldið úti sérstöku tímariti um stjórnarskrárhagfræði. Buchanan fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986 fyrir rannsóknir sínar á almannavali.
Einkaval er, þegar maður fer út í kjörbúð og kaupir sér osthleif. Almannaval er, þegar maður fer inn í kjörklefa og krossar við einhvern kost af nokkrum, til dæmis stjórnmálaflokk til að fara með löggjafarvaldið næstu fjögur árin. Sá augljósi munur er á einkavali og almannavali, að engin nauðung kemur við sögu í einkavali. Maðurinn kaupir sér ekki osthleif, nema hann vilji. Hann velur aðeins fyrir sjálfan sig. En í almannavali eru alltaf sumir að velja fyrir alla. Einhverjir verða undir í atkvæðagreiðslunni.
Stjórnarskrárhagfræðin leitar leiða til að lágmarka nauðung í stjórnmálum. Einfaldast væri auðvitað að krefjast einróma samþykkis við öllum stjórnlagabreytingum, en allir sjá, að það er ekki framkvæmanlegt (þótt Íslendingar hafi farið býsna nærri því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944). Buchanan og lærisveinar hans telja því, að binda þurfi í stjórnlög ýmis ákvæði til verndar minni hlutum.
Til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði þurfi að koma reglur, sem torveldi meiri hluta að samþykkja þungar álögur á minni hluta, til dæmis skatta, sem aðeins fáir bera, eða skuldasöfnun, sem varpað er á komandi kynslóðir, eða verðbólgu, sem er ekkert annað en dulbúinn skattur á notendur peninga. Takmarka þurfi skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins í beinu framhaldi af þeim hömlum, sem þegar eru reistar við afskiptum þess af skoðanamyndun og meðferð einkaeigna.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2020.)
Rita ummæli