Laugardagur 24.10.2020 - 06:51 - Rita ummæli

Stjórnarskrárhagfræði

Furðu sætir, að í öllum umræðunum um lýðveldisstjórnarskrána, sem samþykkt var með 98% atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu 1944, hefur ekkert verið minnst á eina grein hagfræðinnar, stjórnarskrárhagfræði (constitutional economics), sem spratt upp úr rannsóknum James M. Buchanans og annarra hagfræðinga á almannavali í samanburði við einkaval. Er meira að segja haldið úti sérstöku tímariti um stjórnarskrárhagfræði. Buchanan fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1986 fyrir rannsóknir sínar á almannavali.

Einkaval er, þegar maður fer út í kjörbúð og kaupir sér osthleif. Almannaval er, þegar maður fer inn í kjörklefa og krossar við einhvern kost af nokkrum, til dæmis stjórnmálaflokk til að fara með löggjafarvaldið næstu fjögur árin. Sá augljósi munur er á einkavali og almannavali, að engin nauðung kemur við sögu í einkavali. Maðurinn kaupir sér ekki osthleif, nema hann vilji. Hann velur aðeins fyrir sjálfan sig. En í almannavali eru alltaf sumir að velja fyrir alla. Einhverjir verða undir í atkvæðagreiðslunni.

Stjórnarskrárhagfræðin leitar leiða til að lágmarka nauðung í stjórnmálum. Einfaldast væri auðvitað að krefjast einróma samþykkis við öllum stjórnlagabreytingum, en allir sjá, að það er ekki framkvæmanlegt (þótt Íslendingar hafi farið býsna nærri því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944). Buchanan og lærisveinar hans telja því, að binda þurfi í stjórnlög ýmis ákvæði til verndar minni hlutum.

Til viðbótar við hefðbundin mannréttindaákvæði þurfi að koma reglur, sem torveldi meiri hluta að samþykkja þungar álögur á minni hluta, til dæmis skatta, sem aðeins fáir bera, eða skuldasöfnun, sem varpað er á komandi kynslóðir, eða verðbólgu, sem er ekkert annað en dulbúinn skattur á notendur peninga. Takmarka þurfi skattlagningar- og seðlaprentunarvald ríkisins í beinu framhaldi af þeim hömlum, sem þegar eru reistar við afskiptum þess af skoðanamyndun og meðferð einkaeigna.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir