Laugardagur 31.10.2020 - 05:44 - Rita ummæli

Kjörbúðir og kjörklefar

Nú líður að lokum forsetakjörsins bandaríska, en allur heimurinn fylgist með því, enda eru Bandaríkin langöflugasta hagkerfi og herveldi heims. Án þess hefðu þeir Stalín og Hitler líklega skipt Norðurálfunni allri á milli sín upp úr 1940. Spekingar þeir, sem koma fram þessa dagana í fjölmiðlum, segja flestir líklegast, að Joe Biden, fyrrverandi varaforseti, muni sigra. Þetta er rangt. Líklegast er, að Donald Trump, núverandi forseti, muni tapa. Þeir, sem kjósa Biden, eru langflestir að kjósa á móti Trump.

Þetta leiðir hugann að einum mun á því að kjósa úti í kjörbúð og inni í kjörklefa. Úti í kjörbúð kýs maður með krónunum sínum þá vöru, sem hann vill. Inni í kjörklefa kýs hann með höndunum þann frambjóðanda, sem hann vill stundum ekki, en telur illskárri en keppinauturinn. Biden vekur ekki traust. Hann er gleyminn og reikull í tali og leyfir fjölskyldu sinni að hagnast á nafni sínu. Hann ber með sér, að hann er orðinn 77 ára. En hann nær líklegast kjöri, því að hinn spræki keppinautur hans vekur víða stæka andúð, sem er ekki með öllu óskiljanleg.

Annar galli á kjörklefalýðræðinu ólíkt kjörbúðalýðræðinu er, að menn vita ekki alltaf, hvað þeir kjósa yfir sig. Úti í kjörbúð geta menn skoðað vöruna, lesið sér til um innihaldið og séð, hvað hún kostar. En inni í kjörklefanum geta menn sjaldnast séð fyrir, hvað muni gerast, sérstaklega í löndum með hlutfallskosningar og samsteypustjórnir, en líka í löndum með tveggja flokka kerfi eins og í Bandaríkjunum, þótt kostir séu þar skýrari.

Og jafnvel þótt bandarískir kjósendur ættu nú orðið að þekkja þá Joe Biden og Donald Trump, vita þeir ekki, hvað kjör þeirra muni kosta. Biden hyggst hækka skatta á hina tekjuhærri og takmarka vinnslu jarðefna. Þetta er hvort tveggja vel fallið til vinsælda, en gæti haft neikvæðar afleiðingar í atvinnulífinu.

Kjarni málsins er, að vilji einstaklinganna kemur miklu betur fram, þegar þeir kjósa daglega með krónunum úti í kjörbúð en þegar þeir kjósa með höndunum inni í kjörklefa á fjögurra ára fresti. Þess vegna ætti að flytja sem flestar ákvarðanir frá stjórnmálamönnum og skriffinnum til neytenda og skattgreiðenda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. október 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir