Næsta mánudag á bandaríski heimspekingurinn Robert Nozick afmæli. Hann fæddist 16. nóvember 1938 og lést langt fyrir aldur fram 23. janúar 2002. Í væntanlegri bók á ensku um frjálslynda og íhaldssama stjórnmálahugsuði segi ég frá kynnum okkar, en við áttum merkilegar samræður um heima og geima. Bók Nozicks, Stjórnleysi, ríki og staðleysur (Anarchy, State and Utopia), vakti mikla athygli, þegar hún kom út 1974. Í fyrsta hlutanum svaraði hann stjórnleysingjum og sýndi fram á, að ríkið gæti sprottið upp án þess að skerða réttindi einstaklinganna. Í öðrum hlutanum svaraði hann jafnaðarmönnum og leiddi rök að því, að ekkert ríki umfram lágmarksríkið, sem fengist aðeins við að halda uppi lögum og rétti, væri siðferðilega réttlætanlegt. Í þriðja hlutanum benti hann á, að innan lágmarksríkisins gætu menn auðvitað stundað sósíalisma, stofnað sitt eigið draumríki, svo framarlega sem þeir neyddu aðra ekki inn í það.
Nozick telur, að hver maður sé tilgangur í sjálfum sér og hann megi ekki nota eingöngu sem tæki fyrir aðra. Hann andmælir þess vegna nytjastefnu, sem telur tilgang heildarinnar vera sem mesta ánægju sem flestra. Þetta getur kostað það, að einstaklingi sé fórnað fyrir heildina. En er ánægjan eftirsóknarverð í sjálfri sér? Nozick ímyndar sér vél, sem við gætum stigið inn í og valið þar um lífsreynslu að vild, til dæmis ánægjuna af að hafa samið stórkostlegt tónverk, drukkið höfug vín og eignast góða vini. Engar hliðarverkanir væru af dvölinni, og við gætum valið á tveggja ára fresti, hvort við vildum halda vistinni áfram. Myndum við stíga inn í þessa ánægjuvél? Nei, svarar Nozick, því að við viljum vera eitthvað og gera eitthvað sjálf, ekki lifa í manngerðum veruleika.
Ánægjuvél Nozicks er hugvitsamleg, en ég er dálítið hissa á, að enginn fræðimaður skuli hafa bent á, að þýski heimspekingurinn Friedrich Paulsen setti fram svipað dæmi, nema hvað hann hugsaði sér ódáinsdrykk, en ekki vél, í Siðferðislögmálum (System der Ethik), II. bók, II. kafla, 4. grein (Berlin 1889).
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. nóvember 2020.)
Rita ummæli