Laugardagur 21.11.2020 - 08:17 - Rita ummæli

Nozick og íþróttakappinn

Fyrir viku minntist ég hér á bandaríska heimspekinginn Robert Nozick, sem átt hefði afmæli 16. nóvember. Ég kynntist honum nokkuð, og hann var stórkostlegur maður. Hann samdi snjalla dæmisögu um, hvernig hugmyndir jafnaðarmanna um tekjudreifingu rekast á frelsi. Setjum svo, að þeim hafi tekist í landi einu að koma á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá mæti körfuknattleikskappinn Wilt Chamberlain til leiks og semji um, að hver maður greiði 25 sent af aðgöngumiðanum til hans beint. Milljón manns tekur boði hans. Eftir leiktímabilið er hann orðinn 250 þúsund dölum ríkari, en áhorfendur hans hver 25 sentum fátækari. Til er orðin tekjudreifing T2, sem er ójafnari en T1. Hvar er ranglætið? Allir eru ánægðir, jafnt íþróttakappinn sjálfur og aðdáendur hans.

Ég hef notað svipað dæmi. Setjum svo, að jafnaðarmönnum hafi tekist að koma á Íslandi á tekjudreifingu T1, sem þeir telji réttláta. Þá heimsæki Milton Friedman landið, auglýsi fyrirlestur og taki fyrir hann 10.000 kr. á mann. Húsfyllir verður: 500 manns hlustuðu á Friedman. Nú er Friedman 5 milljónum krónum ríkari og áheyrendur hans hver 10.000 krónum fátækari. En þeim fannst fyrirlesturinn vel þess virði. Til er orðin ójafnari tekjudreifing T2. Hvar er óréttlætið? Þorsteinn Gylfason heimspekingur notaði enn annað skemmtilegt dæmi, af Garðari Hólm stórsöngvara, sem kemur til Ólands og heldur tónleika. Ég hef bent á, að Nozick hefur hugsanlega fengið hugmyndina að dæmisögunni úr bókinni God and Man at Yale eftir William Buckley, en þar spyr höfundur, hvað sé að því, að hafnaboltakappinn Joe DiMaggio (sem var um skeið kvæntur þokkagyðjunni Marilyn Monroe) verði ríkur á því, að fólk vilji sækja leiki hans.

Kjarni málsins er sá, að frelsi fólks til að ráðstafa fjármunum sínum raskar hugmyndum jafnaðarmanna um réttláta tekjudreifingu. Fólk ráðstafar þeim stundum til einstaklinga með óvenjulega hæfileika, sem auðga mannlífið og sjálfa sig um leið. Ótal jafnaðarmenn hafa spreytt sig á að hrekja þessa dæmisögu Nozicks, en ekki tekist.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir