Laugardagur 28.11.2020 - 06:52 - Rita ummæli

Til varnar Halldóri Laxness

Vandséð er, hvaða greiði Halldóri Laxness er gerður með því að efna til umræðna um skattframtöl hans og gjaldeyrisskil á fimmta áratug síðustu aldar, en upp komst árið 1947, að hann hefði brotið þágildandi reglur á Íslandi og hvorki talið hér fram tekjur sínar í Bandaríkjunum né skilað gjaldeyri, sem hann hafði aflað sér þar vestra. Hafði talsvert selst 1946 af Sjálfstæðu fólki, sem Alfred Knopf gaf þá út í enskri þýðingu, ekki síst vegna þess að hún var einn mánuðinn valbók í hinu fjölmenna Mánaðarritafélagi (Book-of-the-Month Club). Segi ég frá þessum málum í þriðja bindi verks míns um Laxness, sem kom út 2005.

Ranglátar reglur

Allt frá kreppuárunum voru hér í gildi strangar reglur um það, að menn yrðu að telja allar erlendar tekjur sínar fram og skila til ríkisins öllum þeim gjaldeyri, sem þeir öfluðu erlendis. Naut þó Samband íslenskra samvinnufélaga þeirra fríðinda að mega ráðstafa erlendum gjaldeyristekjum sínum til að greiða erlendar skuldir. Aðrir gátu iðulega ekki greitt slíkar skuldir fyrr en seint og illa, því að þeir fengu ekki nægar gjaldeyrisyfirfærslur. Svo sem vænta mátti, tregðuðust því flestir þeir, sem höfðu erlendar tekjur, til dæmis útflytjendur saltfisks, við að færa þær til Íslands. Málgagn íslenskra sósíalista, Þjóðviljinn, skrifaði ófáar greinar um það hneyksli. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að þessar reglur hafi verið ranglátar og þess vegna ekki við öðru að búast en menn brytu þær, þótt deila megi um, hvort það hafi verið siðferðilega réttmætt („borgaraleg óhlýðni“).

Þegar yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu skoðaði framtal Laxness fyrir 1946, komst hún að því, að hann hafði þar ekki talið fram erlendar tekjur sínar, eins og honum var þó skylt, en allir vissu af því, að Sjálfstætt fólk hafði selst vel í Bandaríkjunum. Hækkaði yfirskattanefnd því framtal hans verulega. Laxness skaut ákvörðun hennar til ríkisskattanefndar, en hún hækkaði framtal hans enn frekar, enda lagði hann ekki fram nein gögn um kostnað á móti tekjum sínum í Bandaríkjunum. Í rannsókn málsins kom í ljós, að Laxness hafði greitt skatt í Bandaríkjunum af tekjum sínum þar, en ekki til viðbótar skatt á Íslandi, eins og tilskilið var, og tókst sátt um, að hann greiddi verulega fjárhæð í skatt hingað, meira en yfirskattanefnd í Gullbringu- og Kjósarsýslu hafði ákveðið honum, en minna en ríkisskattanefnd vildi.

Gjaldeyrisskil Laxness voru síðan sérstakt mál. Hann hafði ekki skipt í íslenskar krónur gjaldeyri, sem hann hafði fengið frá útlöndum, eins og honum var líka skylt, heldur geymt og notað til eigin þarfa. Dómsmálaráðuneytið bauð Laxness sátt um nokkra sekt fyrir þetta brot, en Laxness tók ekki því boði, og var þess vegna höfðað mál gegn honum, sem lauk með hæstaréttardómi árið 1955. Var hluti sakarinnar fyrndur, en Laxness var gert að greiða sekt í ríkissjóð. Þessi tvö mál komu til kasta tveggja opinberra aðila auk skattanefnda og dómstóla, sýslumannsembættisins í Gullbringu- og Kjósarsýslu og dómsmálaráðuneytisins. Sýslumaðurinn var Guðmundur Í. Guðmundsson, þingmaður Alþýðuflokksins, en dómsmálaráðherra Bjarni Benediktsson úr Sjálfstæðisflokknum. Voru þeir aðeins að framfylgja settum reglum eftir bestu samvisku, og raunar var Bjarni andvígur gjaldeyrishöftunum og beitti sér fyrir því, að þau voru afnumin í tveimur áföngum, 1950 og 1960.

Trimble og Bjarna skjátlaðist um Laxness

Brot Laxness á hinum ranglátu reglum, sem voru í gildi á Íslandi, eru að mínum dómi skiljanleg. Af hverju átti hann að þurfa að skila öllum gjaldeyristekjum sínum til ríkisins og fá fyrir krónur á óhagstæðu gengi í stað þess að ráðstafa sjálfur tekjunum erlendis? Nú gera vinstri menn eins og Ólína Þ. Kjerúlf og Halldór Guðmundsson hins vegar veður út af því, að samkvæmt skýrslum bandarískra sendimannna á Íslandi veltu þeir því fyrir sér, hvort ekki mætti nota brot Laxness honum til minnkunar. Skáldið var þá eindreginn stalínisti og hafði borið íslenska stjórnmálamenn landráðasökum í Atómstöðinni, sem kom út snemma árs 1948. Sendi William C. Trimble, sendifulltrúi Bandaríkjanna, skeyti til utanríkisráðuneytis lands síns í febrúar 1948: „Athugið, að orðstír Laxness myndi skaðast verulega, ef við komum því til skila, að hann sé að reyna að komast undan tekjuskatti. Þar af leiðandi er mælt með frekari rannsókn á þeim höfundarlaunum, sem hann hefur væntanlega fengið fyrir Sjálfstætt fólk.“ Hér skjátlaðist Trimble. Almenningur á þeirri tíð taldi brot á þessum reglum ekkert tiltökumál. Orðspor Laxness skaðaðist lítt, þótt upp um hann kæmist. 

Hitt finnst mér ámælisvert, ef menn leggja annan mælikvarða á Laxness, af því að hann var snjall rithöfundur, en á aðra þá, sem öfluðu gjaldeyristekna, svo sem saltfiskútflytjendur. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, líka Laxness. Tekjur hans erlendis voru eins og tekjur saltfiskútflytjenda vel fengið fé. Þetta var sjálfsaflafé, og hann átti eins og þeir að njóta þess sjálfur, en ekki horfa á ríkið gera það upptækt með rangri gengisskráningu og skilaskyldu. Öðru máli gegnir um illa fengið fé. Halldór Guðmundsson hefur yfirumsjón með þeim miklu eignum, sem eftir eru í búi bókafélagsins Máls og menningar, en upplýst hefur verið, að það félag hlaut stórkostlega fjármuni í styrki frá alræðisstjórninni í Moskvu á sjötta og sjöunda áratug og gat þess vegna reist stórhýsi við Laugaveg. Hefur þeirra fjármuna eflaust verið aflað með skógarhöggi og námugrefti í þrælabúðum norðan heimsskautsbaugs. Færi vel á, að þessum fjármunum væri skilað til Rússlands, til dæmis í myndarlegt framlag frá Máli og menningu til stofnunarinnar Minningar (Memorial) í Moskvu, sem hefur þann tilgang að halda á lofti minningunni um fórnarlömb kommúnismans, en á undir högg að sækja undir stjórn Pútíns.

Bjarna Benediktssyni skjátlaðist ekki síður en Trimble. Í bandarískum skýrslum kemur fram, að hann velti fyrir sér, hvort Laxness fjármagnaði af erlendum tekjum sínum hina öflugu starfsemi íslenskra sósíalista. Bjarni hefur bersýnilega lítt verið kunnugur Laxness. Fátt hefði verið fjær skáldinu en að ráðstafa erlendum tekjum sínum í hugsjónastarf. Laxness klæddist vönduðustu fötum, sem völ var á, ók um á glæsikerru, bjó í skrauthýsi á íslenskum mælikvarða, lét gera sér fyrstu einkasundlaug á Íslandi og dvaldist langdvölum erlendis við munað, til dæmis á d’Angleterre í Kaupmannahöfn. Þetta var að mínum dómum skiljanlegt og jafnvel lofsvert. Auðvitað var sjálfsaflafé Laxness miklu betur varið í að búa honum þægilegar aðstæður til að skrifa af samúð og skilningi um fátæklingana á Íslandi en í blaðaútgáfu og fundahöld á vegum rifrildismanna. Í viðskiptum var Laxness sannur kapítalisti.

Órökstuddar getgátur

Þau Kjerúlf og Halldór vitna til gagna úr bandarískum skjalasöfnum, sem eiga að sýna samantekin ráð gegn Laxness. Að vísu verður að meta skýrslur erlendra sendimanna um samtöl við íslenska ráðamenn af meiri varúð en þau gera, en ég tel þau tvímælalaust hafa rétt fyrir sér um, að samantekin ráð hafi verið um að rannsaka, hvort Laxness hefði gerst brotlegur við íslenskar reglur um skattframtöl og gjaldeyrisskil, og það reyndist rétt vera. En þau Kjerúlf og Halldór ganga lengra og láta að því liggja, að samantekin ráð hafi líka verið um að stöðva útgáfu bóka Laxness í Bandaríkjunum. Því er til að svara, að engin gögn hafa fundist um það. Um er að ræða órökstuddar getgátur, eins og Halldór viðurkennir raunar í grein sinni hér í blaðinu miðvikudaginn 25. nóvember. 

Er líklegt, að útgefandi Laxness, Alfred Knopf, hafi ákveðið að gefa ekki út fleiri bækur Laxness vegna þeirra fyrirspurna, sem umboðsfyrirtæki skáldsins, Curtis Brown, og Mánaðarritafélaginu bárust um tekjur hans og skattgreiðslur? Óvíst er, að Knopf hafi vitað af þeim. Og jafnvel þótt hann hefði vitað af þeim, tel ég líklegt, að hann hefði haldið áfram að gefa út bækur Laxness, hefði hann séð í því hagnaðarvon. Knopf var sami kapítalistinn og Laxness sjálfur. Og hefði hann sjálfur horfið frá því af stjórnmálaástæðum, þá hefðu aðrir væntanlega stokkið til eftir sömu forsendu, að þeir sæju í því hagnaðarvon. Árið 1988 kom út í Bandaríkjunum bók eftir einn menningarrýnanda New York Times, Herbert Mitgang, og var hún um eftirlit alríkislögreglunnar í kalda stríðinu með ýmsum rithöfundum og menntamönnum, sem hún taldi varhugaverða. Einn þeirra var Alfred Knopf. Af því tilefni ræddi New York Times 5. febrúar við son Knopfs, sem sagðist vera steinhissa á þessu. „Hann var hinn dæmigerði kapítalisti,“ sagði hann um föður sinn. „En hann gaf út allt, sem honum fannst eiga erindi á prent. Hann skeytti engu um stjórnmálaskoðanir.“

(Grein í Morgunblaðinu 27. nóvember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir