Laugardagur 19.12.2020 - 12:50 - Rita ummæli

Afturköllunarfárið

Siðfræðingarnir uppi í Háskóla eru fljótir að taka til máls, þegar menn af hægri væng eru taldir misstíga sig. Til dæmis hefur Henry Alexander Henrysson krafist þess opinberlega, að Illugi Gunnarsson, þingmenn Miðflokksins og Kristján Þór Júlíusson segi af sér, ýmist fyrir vináttu við aðra eða ógætileg ummæli í einkasamtölum. En ég hef ekki orðið var við, að Henry Alexander eða hinir siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni, þeir Vilhjálmur Árnason og Jón Ólafsson, hafi sagt neitt um mál Róberts Spanós, forseta Mannréttindadómstóls Evrópu, sem þáði í september síðast liðinn heiðursdoktorstitil í Istanbul, þótt þúsundir tyrkneskra háskólakennara hefðu nýlega verið flæmdar úr stöðum sínum. Jafnframt heimsótti hann borgarstjórann í Mardin, sem Erdogan forseti skipaði eftir að hafa sett löglega kjörinn borgarstjóra af.

Þögn siðfræðinganna um þetta mál er æpandi, en aðrir minntu á, að Gunnar Gunnarsson þáði heiðursdoktorstitil í Heidelberg á valdatíma nasista. Sá munur er þó á, að Gunnar var ekki embættismaður. Hann þurfti ekki að sitja í dómarasæti yfir tyrkneskum stjórnvöldum eins og Spanó á væntanlega eftir að gera. En ef til vill er enn forvitnilegra, hvort afturkalla eigi heiðursdoktorstitla, eins og nú er að verða algengt. Nokkrir bandarískir háskólar hafa til dæmis ógilt slíkar nafnbætur leikarans Bills Cosbys, eftir að uppvíst varð um kynferðisbrot hans. Árið 2007 afturkallaði Edinborgarháskóli doktorstitil Roberts Mugabes, leiðtoga Simbabve, vegna síendurtekinna mannréttindabrota. Elsta dæmið, sem ég kann, var, þegar Pennsylvaníu-háskóli afturkallaði í ársbyrjun 1918 heiðursdoktorstitla þeirra Vilhjálms II. Þýskalandskeisara og sendiherra Þýskalands í Bandaríkjunum, Johanns von Bernstorffs.

Sjálfum finnst mér nóg um þetta afturköllunarfár (cancel culture). Það er samt umhugsunarefni. Árið 1980 afturkallaði Keele-háskóli í Bretlandi heiðursdoktorstitil Kurts Waldheims, forseta Austurríkis, eftir að í ljós kom, að hann hafði verið í þýska hernámsliðinu í Júgóslavíu á stríðsárunum, þótt engir stríðsglæpir hefðu sannast á hann. Og við eigum íslenskt dæmi. Árið 1975 veitti Háskólinn þýska málfræðingnum Bruno Kress heiðursdoktorstitil. Hann var ákafur nasisti fyrir stríð, félagi nr. 3.401.317 í Nasistaflokknum þýska og styrkþegi „rannsóknarstofnunar“ SS-sveitanna, Ahnenerbe, Arfleifðarinnar, en forstjóri hennar og fleiri starfsmenn reyndust sekir um alvarlega stríðsglæpi. Hefði Háskólinn átt að fara að dæmi Keele-háskóla? Sjálfur er ég ekki viss um það. En siðfræðingarnir í Vatnsmýrinni ættu ef til vill að ræða það í sömu andrá og mál Spanós.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. desember 2020.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir