Oftast er ágreiningur í stjórnmálum þess eðlis, að ekki verður með fullri vissu úr honum skorið, enda er lífið undirorpið óvissu. Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann? spurði Jón Hreggviðsson. Enginn vissi með fullri vissu, hvað hafði gerst, þegar Sigurður böðull sálaðist. Þó eru til mál, sem atvikin hafa hagað því svo, að unnt er að skera úr um þau. Eitt þeirra er Icesave-málið. Strax og ljóst varð, að þjóðin myndi fella samning Svavars Gestssonar, buðu Bretar miklu betri kjör, þótt niðurstaðan yrði að lokum sú, sem við höfðum nokkur haldið fram allan tímann, að það hefði ekki verið um neitt að semja, því að íslenska ríkið hefði ekki borið ábyrgð á viðskiptum einkaaðila. Samningur Svavars var eins og Sigurður Már Jónsson sagði í fróðlegri bók sinni um málið „afleikur aldarinnar“. Samanburðurinn á samningi Svavars og síðan þeim, sem Lee Buchheit gerði, nægði til að skera úr um málið. Við hefðum sparað okkur hundruði milljóna í vexti með samningi Buchheits, svo að ekki sé minnst á allt annað. Hér voru mistökin mælanleg: Tveir samningamenn, tvær niðurstöður.
Nú er því miður komið til sögu annað dæmi jafnskýrt. Það eru samningar íslenskra stjórnvalda um bóluefni vegna veirufaraldursins, sem gengið hefur um heiminn. Svo virðist sem Íslendingar fái ekki nægt bóluefni fyrr en seint á árinu. Stjórnvöld hafa leikið stórkostlega af sér. Heilbrigðisráðherra tók aðeins númer á biðstofu Evrópusambandsins og ætlaði að bíða þar auðsveip eftir því, að nafn Íslands yrði kallað upp. Hún virðist ekki haft áhuga á að nýta sér aðstoð einkaaðila, sem voru boðnir og búnir. Þegar þetta er skrifað á síðasta degi ársins 2020, hafa Ísraelsmenn hins vegar þegar bólusett í fyrri umferð fleira fólk en Íslendingar eru í heild. Hvað höfðu samningamenn þeirra, sem samningamenn Íslendinga höfðu ekki? Hér eru mistökin mælanleg: Tvær þjóðir, tvær niðurstöður. Við höfðum öll skilyrði til að losna úr þessari prísund á fyrstu mánuðum ársins 2021. Í Icesave-málinu átti að hneppa okkur í áratuga skuldafangelsi. Nú á að loka okkur inni fram eftir ári eins og við værum í Austur-Þýskalandi, og á meðan munu einhverjir deyja, aðrir smitast og fyrirtæki fara í þrot. Það tókst að leiðrétta afglöpin í Icesave-málinu. Vonandi tekst það líka í Covid19-málinu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 2. janúar 2021.)
Rita ummæli