Laugardagur 09.01.2021 - 08:09 - Rita ummæli

Árásirnar á þinghúsin

Heimsbyggðin fylgdist agndofa með því, er æstur lýður braust 6. janúar inn í bandaríska þinghúsið. Er með ólíkindum, að hann hafi komist svo langt. Það er fróðlegt siðferðilegt úrlausnarefni, hver ber ábyrgðina. Auðvitað ber þessi óþjóðalýður, eins og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kallaði hann réttilega, mestalla ábyrgðina, en einhverja sök á einnig Donald Trump Bandaríkjaforseti. Um slíka skipta sök hefur einn kennari minn í Oxford, David Miller, skrifað bók, National Responsibility and Global Justice (2007), sem ég nýtti mér í skýrslu minni um bankahrunið. Miller telur, að ræðumaður á útifundi beri nokkra ábyrgð á gerðum hóps, sem grípur til ofbeldis eftir að hafa hlustað á æsingaræðu hans, jafnvel þótt sjálfur taki hann ekki beinan þátt í því ofbeldi.

Eftir þeim mælikvarða báru samkennarar mínir, þeir Þorvaldur Gylfason og Gylfi Magnússon, nokkra ábyrgð á síendurteknum árásum óþjóðalýðs á Alþingishúsið í bankahruninu 2008–2009 eftir æsingaræður þeirra á fundum, og með sömu rökum ber Trump nokkra ábyrgð á innrásinni í bandaríska þinghúsið. Á Íslandi er þó sambærilegasta dæmið, þegar óeirðaseggir réðust á Alþingishúsið 30. mars 1949, eftir að Einar Olgeirsson hafði látið þau boð út ganga, að þingmenn sósíalista væru fangar inni í húsinu. (Var Einar ákærður og dæmdur fyrir aðild að árásinni.)

Eflaust minna stuðningsmenn Trumps á, að margir forystumenn Lýðræðisflokksins (Demókrata) sættu sig ekki við úrslit forsetakjörsins 2016, heldur siguðu lögreglu á forsetann og helstu fylgismenn hans, jafnframt því sem þeir höfðuðu fáránlegt mál á hendur honum til embættismissis. Þeir geta líka bent á óeirðirnar í mörgum ríkjum Bandaríkjanna á síðasta ári, þar sem vinstriöfgamenn gengu óáreittir berserksgang. En þótt þetta kunni að einhverju leyti að skýra innrásina í þinghúsið bandaríska, afsakar það hana ekki. Í rótgrónum lýðræðisríkjum er ofbeldi óafsakanlegt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. janúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir