Laugardagur 23.01.2021 - 06:52 - Rita ummæli

Laxness: Lærisveinn Einars og Brynjólfs

Oft er með réttu talað um mikil áhrif Halldórs Laxness á hreyfingu íslenskra kommúnista og vinstri sósíalista. Minna hefur verið rætt um áhrif helstu íslensku stalínistanna á skáldið. Hér skal ég nefna tvö dæmi um bein áhrif Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar á Laxness.

Eftir að Laxness hafði gefið út Sölku Völku, birti Einar greiningu í Rétti 1932 á bókinni undir heitinu „Skáld á leið til sósíalismans“. Kvað hann Laxness ekki hafa náð fullum þroska sem öreigarithöfundur. Hann ætti til að skopast að verkalýðsbaráttu. Hann gæti lært margt af skáldverkum eins og Anna proletarka (Öreigastúlkunni Önnu) eftir tékkneska rithöfundinn Ivan Olbracht. Sú bók var til í bókasöfnum og bókabúðum hér á landi í þýskri og sænskri þýðingu. Laxness fór að ráði Einars, því að söguþráðurinn í Atómstöðinni er tekinn beint upp úr sögu Olbrachts. Alþýðustúlka kemur úr sveit, vinnur hjá efnaðri fjölskyldu og flækist inn í stjórnmálaátök, nema hvað í sögu Olbrachts svíkja jafnaðarmenn kommúnista eftir fyrra stríð, en í sögu Laxness er landið selt.

Upphafið að Gerska æfintýrinu, ferðabók Laxness frá Rússlandi, sem kom út haustið 1938, hefur löngum þótt meistaralegt. Þar segist Laxness í fyrsta sinn á ævinni geta skrifað bók, sem þýdd yrði á allar þjóðtungur Norðurálfu, og keypt sér fyrir ritlaunin bústað við Miðjarðarhaf og Rolls Royce bíl. Hann þyrfti ekki að gera annað en skrifa ádeilu á Rússland. Þess í stað ætlaði hann að skrifa um það sannleikann. Hugmyndin að þessu upphafi er bersýnilega tekin beint úr grein eftir Brynjólf Bjarnason í Þjóðviljanum 5. mars 1937. Hefði Laxness skrifað níð um stjórnarfar Stalíns, segir Brynjólfur þar, þá hefðu Morgunblaðið og Alþýðublaðið „óðar gert hann að dýrlingi um allar aldir. Þá hefðu nú ekki verið sparaðir peningarnir úr ríkissjóði til vísinda og lista. Þá hefði Halldóri verið reist veglegt hús og voldugur minnisvarði í lifanda lífi.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. janúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir