Laugardagur 23.01.2021 - 07:10 - Rita ummæli

Rakhnífur Occams

Þegar ég stundaði forðum heimspekinám, var okkur kennt um „rakhníf Occams“. Vilhjálmur af Occam var enskur munkur af reglu heilags Frans frá Assisi, og var hann uppi frá 1285 til 1349. Rakhnífur Occams merkir þá reglu, að jafnan beri að velja einföldustu skýringuna, sem völ sé á. Þessi regla er oftast orðuð svo á latínu: „Entia non sunt multiplicanda præter necessitatem.“ Það er á íslensku: „Eigi ber að fjölga einingum umfram það, sem nauðsynlegt getur talist.“ Það er annað mál, að þessa reglu er hvergi að finna í þeim ritum Vilhjálms, sem kunn eru. Þar segir þó á einum stað: „Pluralitas non est ponenda sine necessitate.“ Það er á íslensku: Ekki ber að nota fleira en nauðsynlegt er. Sjá Quodlibeta (um 1324), 5. kafla, 1. spurningu, 2. grein.

Mér datt rakhnífur Occams í hug, þegar ég horfði á viðtal Helga Seljans fréttamanns við Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi eiganda Baugs, í „Kveik“ fimmtudagskvöldið 21. janúar 2021. Þar rakti Jón Ásgeir upphaf Baugsmálsins svonefnda, sem hófst sumarið 2002, til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem hefði sigað lögreglunni á sig. En er einfaldasta skýringin á upphafi málsins ekki sú, sem liggur fyrir? Hún er, að gamall viðskiptafélagi Jóns Ásgeirs, Jón Gerald Sullenberger, kærði hann þá um sumarið fyrir lögreglu. Kvað hann Jón Ásgeir hafa tekið þátt í því með sér að gera ólöglegt skjal. Aðrir kunna að hafa haft skoðanir á Jóni Ásgeiri og umsvifum hans, til dæmis forsætisráðherra, og jafnvel látið þær í ljós í einkasamtölum. En þarf að blanda þeim í málið, svo einföld og augljós skýring sem til er á upphafi þess? Eins og kom fram í dómsúrskurðum, bar Jón Gerald þungan hug til Jóns Ásgeirs og þurfti því enga hvatningu til kærunnar, og eftir mikið þóf urðu lyktir þær, að báðir voru þeir nafnar sakfelldir fyrir gerð skjalsins og dæmdir í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Hér hefði fréttamaðurinn mátt nota rakhníf Occams.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. janúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir