Laugardagur 30.01.2021 - 05:06 - Rita ummæli

Hvað er nýfrjálshyggja?

Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin og ber fyrir því tvo kunna vinstri menn bandaríska, Joseph Stiglitz hagfræðing og Robert Kuttner fréttamann. En hvað er nýfrjálshyggja? Flestir geta verið sammála um, að hún sé sú skoðun, sem Friedrich von Hayek og Milton Friedman efldu að rökum og Margrét Thatcher og Ronald Reagan framkvæmdu upp úr 1975, að ríkið hefði vaxið um of og þrengt að frelsi og svigrúmi einstaklinganna. Mál væri að flytja verkefni frá skriffinnum til frumkvöðla og lækka skatta.

Það studdi nýfrjálshyggjuna, að ríkisafskiptastefnan, sem fylgt hafði verið frá stríðslokum, hafði gefist illa, en samkvæmt henni átti að tryggja fulla atvinnu með peningaþenslu. Þetta reyndist ekki gerlegt til langs tíma litið. Afleiðingin hafði orðið verðbólga með atvinnuleysi, ekki án þess. Þau Thatcher og Reagan náði góðum árangri, og leiðtogar annarra þjóða tóku upp stefnu þeirra, ekki síst stjórnmálaforingjar í hinum nýfrjálsu ríkjum, sem kommúnistar höfðu stjórnað í Mið- og Austur-Evrópu, Mart Laar, Václav Klaus og Leszek Balcerowicz. Undir forystu þeirra breyttust hagkerfi þessara ríkja undrafljótt og án blóðsúthellinga úr kommúnisma í kapítalisma, og þjóðir landanna tóku að lifa eðlilegu lífi. Þetta er eitt þögulla afreka mannkynssögunnar.

Frá hruni kommúnismans 1991 hefur verið ótrúlegt framfaraskeið á Vesturlöndum, eins og Matt Ridley og Johan Norberg rekja í bókum, sem komið hafa út á íslensku. Meginskýringin er auðsæ: aukin alþjóðaviðskipti, sem gera mönnum kleift að nýta sér kosti hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Mörg hundruð milljón manna í Kína, Indlandi og öðrum suðrænum löndum hafa þrammað á sjömílnaskóm úr fátækt í bjargálnir, og á Vesturlöndum hafa almenn lífskjör batnað verulega í öllum tekjuhópum, þótt vitanlega hafi teygst á tekjukvarðanum upp á við, enda gerist það fyrirsjáanlega við aukið svigrúm einstaklinganna. Hinir ríku hafa orðið ríkari, og hinir fátæku hafa orðið ríkari.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir