Fimmtudagur 04.02.2021 - 06:35 - Rita ummæli

Píslarsaga Jóns hin síðari

Í upphafi Málsvarnar Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, sem Einar Kárason rithöfundur færði í letur og kom út í janúar 2021, líkir hann málum gegn honum við Dreyfusarmálið franska, þegar franskur liðsforingi af gyðingaættum var hafður fyrir rangri sök um njósnir, jafnvel þótt yfirvöld vissu eða hefðu rökstuddan grun um, hver væri sekur. Þessi líking er fráleit. Saga Jóns Ásgeirs á sér hins vegar tvær hliðstæður í íslenskum bókmenntum. Önnur er helgisaga Jóns biskups Ögmundarsonar, sem Gunnlaugur Leifsson munkur skráði í því skyni að fá biskup tekinn í heilagra manna tölu. Bera þar samtíðarmenn Jóns vitni um manngæsku hans. Sams konar vitnisburði vina og samstarfsmanna Jóns Ásgeirs getur að líta í bók þeirra Einars: Hann sé stilltur, fámáll, talnaglöggur, umtalsfrómur, duglegur, þolinmóður, örlátur og raungóður. Hin hliðstæðan er Píslarsaga Jóns Magnúsarsonar (Jóns þumlungs), þar sem hinn vestfirski klerkur lýsir af mergjaðri mælsku göldrum gegn sér. Galdrakindurnar eru nú ekki Jón Jónsson og börn hans Jón og Þuríður, eins og í dæmi Jóns þumlungs, heldur Davíð Oddsson, forsætisráðherra 1991–2004 og seðlabankastjóri 2005–2009.

Afreksmaður verður píslarvottur

Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi flesta þá mannkosti til að bera, sem vinir hans og samstarfsmenn vitna um. Sjálfur kann ég vel við hann og hef átt ánægjuleg samtöl við hann, eins og hann minnist á, og er allt rétt, sem þeir Einar segja um mig. Í fyrsta hluta bókarinnar greinir frá því afreki Jóns Ásgeirs og föður hans, Jóhannesar Jónssonar í Bónus, að hefja verslunarrekstur árið 1989 með tvær hendur tómar, leggja áherslu á lítinn tilkostnað og lágt vöruverð almenningi til hagsbóta. Er sú saga hin ævintýralegasta og besti hluti bókarinnar. Undir forystu Davíðs Oddssonar var að renna upp á Íslandi ný öld, þar sem lánsfé var ekki skammtað eftir flokksskírteinum, heldur mati fjármálastofnana á endurgreiðslugetu lántakenda (og vonum þeirra um þóknanir). Jafnframt voru fjármagnshöft í erlendum viðskiptum afnumin. Þeir feðgar nutu útsjónarsemi sinnar og dugnaðar og urðu brátt ríkir á íslenskan mælikvarða. Ég var einn þeirra, sem dáðist að þeim. En mikið vill meira. Þegar ríkið seldi helminginn í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins árið 1999, hóf Jón Ásgeir samstarf um kaup á honum við hinn umdeilda fjármálamann Jón Ólafsson, sem Davíð hafði litlar mætur á, ekki síst eftir að hann studdi R-listann fjárhagslega í Reykjavík 1994 og reyndi að fá vinstri flokkana til að mynda stjórn undir forystu Halldórs Ásgrímssonar 1999. Davíð er eins og dýrið í söngleiknum franska. Það er ægilega grimmt: það ver sig, ef á það er ráðist.

Jafnframt því sem Jón Ásgeir hóf að fjárfesta í fyrirtækjum óskyldum smásöluverslun, jókst hlutdeild Bónusfeðga, sem nú kenndu sig við Baug, í smásöluverslun. Í krafti auðæfa sinna og lánstrausts keyptu þeir upp hvert fyrirtækið af öðru. Jóhannes í Bónus hafði sagt, að ekkert fyrirtæki á smásölumarkaði ætti helst að ráða meira en 10 hundraðshlutföllum af markaðnum, en Baugur réð miklu meira. Víða lá við, að þeir næðu einokunaraðstöðu. Davíð taldi þá beita þessari aðstöðu til að halda vöruverði hærra en eðlilegt mætti teljast. Kvað hann hugsanlegt að skipta slíku fyrirtæki upp, eins og gert var í Bandaríkjunum á öndverðri tuttugustu öld. Furðu sætir, þegar Einar segir frá þeirri yfirlýsingu (bls. 187), að hann þegir um, að hún var í svari við fyrirspurn frá Össuri Skarphéðinssyni, þá formanni Samfylkingarinnar, á þingi í janúar 2002 um, til hvaða ráða væri rétt að grípa til að afstýra hringamyndun í smásöluverslun.

Jón Ásgeir hafði tekið illa andstöðu Davíðs árið 1999 við kaup þeirra Jóns Ólafssonar á banka. Jón Ásgeir tók enn verr varnaðarorðum Davíðs á þingi árið 2002 um fákeppni og hringamyndun. Davíð fékk síðan fregnir af því, að Jón Ásgeir hefði velt því fyrir sér, hvort ekki mætti bera fé á sig. Sjálfur sagði Jón Ásgeir mér í spjalli okkar 23. mars 2003, að mútumálið væri mjög orðum aukið. Hann hefði setið eitt kvöldið með tveimur samstarfsmönnum sínum, sem hann nafngreindi. Talið hefði borist að andstöðu Davíðs við Baug. Þá hefði þetta verið orðað í gamni í sambandi við orðróm um, að Decode hefði mútað Davíð. Ég sagði Jóni Ásgeiri, að sumt ætti ekki einu sinni að nefna í gamni, og forsætisráðherra hefði tekið þetta óstinnt upp. Allir, sem þekktu Davíð, vissu, hversu fáránlegt þetta væri.

Upphaf Baugsmálsins

Þá hugmynd Jóns Ásgeirs, að Davíð ofsækti sig, má því rekja til sölu helmingshlutar í FBA 1999 og umræðna um hringamyndun og fákeppni í smásöluverslun að frumkvæði Össurar Skarphéðinssonar 2002. En nú var Ísland orðið of lítið fyrir Jón Ásgeir. Hann naut hér nær ótakmarkaðs lánstrausts. Íslenskir bankamenn höfðu ofurtrú á honum. „Jón Ásgeir is a winner,“ sagði Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri hróðugur við mig. Jón Ásgeir taldi sig koma auga á góð viðskiptatækifæri í smásöluverslun erlendis, og hann var að undirbúa kaup á breska stórfyrirtækinu Arcadia sumarið 2002, þegar efnahagsbrotadeild lögreglunnar gerði 28. ágúst húsleit hjá Baugi, en það varð til þess, að kaupin á Arcadia fóru út um þúfur, þótt Jón Ásgeir græddi síðan morð fjár á sölu hlutabréfa sinna í fyrirtækinu. (Hann virðist hafa haft rétt fyrir sér um, að á þeim tíma væri hagstætt að kaupa í Arcadia.) Jón Ásgeir taldi Davíð hafa sigað lögreglunni á sig, og hófst nú sú píslarsaga, sem hann segir af sjálfum sér.

Þótt Einar endurtaki í bókinni þessar ásakanir Jóns Ásgeirs, eru þær með öllu tilhæfulausar. Davíð var vissulega oft gagnrýninn á Baug og sparaði þá ekki alltaf stóru orðin í einkasamtölum, en það var vegna þess, að hann hafði (eins og Össur þá) þungar áhyggjur af hringamyndun og fákeppni. Var eðlilegt, að forsætisráðherra landsins léti sig þetta varða. En Davíð hafði hlotið góða menntun sem lögfræðingur og gætti þess vandlega sem forsætisráðherra að virða lögmætisregluna, en hún er, að hverju valdi er afmarkað svið, sem ekki má fara yfir. Til er miklu einfaldari skýring á húsleit lögreglunnar í ágúst 2002. Baugsfeðgar höfðu aflað sér tveggja hatrammra andstæðinga. Jón Gerald Sullenberger, sem annaðist viðskipti fyrir Baug í Bandaríkjunum, taldi Jón Ásgeir hafa gerst nærgöngulan við konu sína, og er ekki ofmælt, að hann réð sér ekki fyrir reiði. Jónína Benediktsdóttir hafði verið í sambandi við Jóhannes, föður Jóns Ásgeirs, en upp úr því hafði slitnað, og taldi Jónína Baugsfeðga bera ábyrgð á gjaldþroti hennar. Var henni líka heitt í hamsi og sagði hverjum sem er (þar á meðal mér) ófagrar sögur um viðskiptahætti feðganna. Jónína reyndi hvað eftir annað að ná tali af Davíð til að rekja raunir sínar, en Davíð kærði sig ekki um að hafa nein afskipti af þessu máli og hitti hana því aldrei.

Jón Gerald lagði sumarið 2002 fram kæru á Jón Ásgeir fyrir að hafa látið sig útbúa háan reikning, 62 milljónir, sem var tekjufærður hjá Baugi, þótt hann hefði ekki verið greiddur. Var bókhald fyrirtækisins þannig fegrað. Kvaðst hann hafa grun um, að margt fleira væri athugavert við rekstur fyrirtækisins, og vakti það áhuga efnahagsbrotadeildar lögreglunnar. Það styrkti eflaust málstað Jóns Geralds í augum lögreglumanna, að hann hafði útvegað sér einn öflugasta lögfræðing landsins, Jón Steinar Gunnlaugsson, en hann hafði raunar varað Jón Gerald við því, að hann hefði ekki síður en Jón Ásgeir brotið bókhaldslög með því að útbúa þennan reikning. Höfðu sambærilegar húsrannsóknir verið gerðar áður hjá ýmsum íslenskum stórfyrirtækjum.

Baugsmálinu lauk með því, að þeir Jón Ásgeir og Jón Gerald fengu báðir skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir að hafa útbúið og tekjufært þennan reikning upp á 62 milljónir, sem upphaflega var kært fyrir, og þannig fegrað bókhald Baugs. Í rannsókn málsins varð líka uppvíst, að Jón Ásgeir hafði látið fjölskyldufyrirtæki sitt, Gaum, kaupa á laun fyrirtækið Vöruveltuna og ári síðar selt það miklu dýrar Baugi, sem þá var almenningshlutafélag. (Munurinn var rösklega 300 milljónir að teknu tiiliti til eignasölu, á meðan fyrirtækið var í eigu Gaums.) Ég hef aldrei skilið þá niðurstöðu dómstóla, að það hafi aðeins verið venjuleg viðskipti.

Einkennilegar sögur

Ég held, að Jón Ásgeir sé þrátt fyrir marga góða kosti ekki sá sakleysingi, sem Einar Kárason vill vera láta í þessari bók. Það er frekar Einar sjálfur, sem er sakleysinginn. Sumt í frásögn hans gengur ekki upp. Hann skráir til dæmis samviskusamlega eftir lögfræðingi Jóns Ásgeirs (bls. 270), að lán Glitnis til Baugs hafi snarhækkað, eftir að Jón Ásgeir tók stjórnina í bankanum vorið 2007, af því að gengi krónunnar hafi fallið, og við það hafi allar upphæðir hækkað. En hefðu lán til annarra aðila þá ekki átt að hækka að sama skapi? Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom einmitt fram, að hlutfall lána Glitnis til Baugs af heildarútlánum jókst verulega, eftir að Jón Ásgeir náði yfirhöndinni í bankanum. Af einhverjum ástæðum birti rannsóknarnefndin ekki neitt samanburðarlínurit um þróun lána bankanna til stærstu viðskiptahópanna. Ég gerði hins vegar slíkt línurit eftir tölum nefndarinnar, og af því sést, að sú niðurstaða hennar er rétt, að Jón Ásgeir var í sérflokki um skuldasöfnun við bankana. Einar gengur eins og rannsóknarnefnd Alþingis fram hjá mikilvægri spurningu: Hvernig í ósköpunum gat einn aðili safnað skuldum upp á mörg hundruð milljarða króna í íslensku bönkunum? Raunar skín í tilgang Jóns Ásgeirs með bankakaupum, þegar hann segir um Fjárfestingarbanka atvinnulífsins (bls. 45): „Menn sáu að ef þessi banki lenti inni í gömlu klíkunum yrði lítið fé að hafa til framkvæmda fyrir aðra.“

Einar skráir af sömu stöku samviskuseminni sögu eftir Kristínu Þorsteinsdóttur. Hún hafi verið kunnug norska lögfræðingnum Evu Joly, á meðan báðar bjuggu í Noregi. Þess vegna hafi hún verið boðin í kvöldverð í norska sendiráðinu með Evu, þegar hún kom hingað til lands vorið 2009 í því skyni að veita lögregluyfirvöldum ráðgjöf um rannsókn efnahagsbrota. Þar hafi margir frammámenn lögreglunnar verið staddir, þar á meðal ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari. Umræður undir borðum hafi aðallega snúist um, hvernig koma mætti Baugsmönnum í fangelsi. Kristín hafi loks verið spurð um starf sitt, og þegar hún sagðist vera í vinnu fyrir Baug, hafi veislugestir snarlega þagnað og hraðað sér burt (bls. 358–359). En getur verið, að íslenskir lögreglumenn, sem voru að rannsaka Baugsmálið, hafi ekki vitað, að Kristín vann fyrir Baug? Og hefðu þeir notað kvöldverðarboð hjá Norðmönnum til að ráða ráðum sínum? Og hefði sendiráð erlends ríkis verið réttur vettvangur umræðna um lögreglurannsókn?

Hér er augljóslega eitthvað málum blandið. Annaðhvort hafa hinir norsku stjórnarerindrekar eða íslensku lögreglumennirnir farið í samtölum langt út fyrir það, sem eðlilegt gat talist, nema Kristínu misminni hrapallega. Það er hins vegar rétt, eins og Einar nefnir og vísar um til skýrslu minnar um bankahrunið, að norsk yfirvöld reyndust Íslendingum illa eftir bankahrunið. Þótt banki Glitnis í Noregi væri traust eign, neitaði norski seðlabankinn að veita honum lausafjárfyrirgreiðslu, og skilastjórn Glitnis var neydd til að selja hann hópi norskra lífeyrissjóða fyrir brot af eigin fé, og stórgræddu kaupendur á viðskiptunum. Svipað var að segja um blómlegt verðbréfafyrirtæki Glitnis í Noregi.

Trúnaðarbrot?

Sumt af því, sem þeir Jón Ásgeir og Einar segja í bókinni, virðist fela í sér trúnaðarbrot heimildarmanna þeirra. Einn þeirra er Ólafur R. Grímsson forseti, sem kveður Davíð hafa sagt honum undir fjögur augu vorið 2004, að forsvarsmenn Baugs ættu eftir að enda í fangelsi (bls. 237). Reglulegir fundir þeirra Ólafs og Davíðs, forseta og forsætisráðherra, voru bundnir ströngum trúnaði, og hefur Davíð aldrei sagt mér neitt um það, sem þeim fór í milli. Mér datt þess vegna ekki í hug að leita til hans um þetta. Annar heimildarmaður þeirra Einars er Jóhann R. Benediktsson, sem var um skeið sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Hann segir Harald Johannessen ríkislögreglustjóra hafa tilkynnt Davíð að sér viðstöddum í forsætisráðherrabústaðnum á Þingvöllum snemma sumars 2002, að nú ætti að láta til skarar skríða gegn Baugi (bls. 173). Davíð hafi fyrst við og „sussað“ á Harald. Ég spurði Davíð um þetta, og tók hann því víðs fjarri. Þetta væri fullkominn uppspuni. Hófið á Þingvöllum var haldið til að þakka lögreglunni fyrir hennar þátt í að vernda forseta Kína, sem kom við nokkurt andóf í opinbera heimsókn til Íslands í júní 2002. Var samkvæmið fjörugt og fjölmennt og hentaði lítt il launmála.

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli kemur við sögu á öðrum stað í bókinni. Segist Jóhann hafa fengið beiðni um það frá efnahagsbrotadeild lögreglunnar, eftir að gerð var húsleit hjá Baugi 28. ágúst 2002, að færa Jón Ásgeir, sem væntanlegur var með flugi frá Lundúnum daginn eftir, til yfirheyrslu. Hafi hann neitað að verða við þeirri beiðni, og einn „samstarfsmaður“ sinn hafi látið Jón Ásgeir vita af fyrirætlun efnahagsbrotadeildarinnar (bls. 66). Eftir að Jón Ásgeir fékk þessar upplýsingar, brá hann á það ráð að afpanta ekki flugmiða sinn, en leigja einkaþotu, sem lenti á Reykjavíkurflugvelli, og þaðan hélt hann að eigin frumkvæði í yfirheyrslu hjá lögreglunni. Það blasir við, hver „samstarfsmaðurinn“ var. En Jóhann skýrir líka frá því að sögn Einars, að fréttamenn Sjónvarpsins hafi haft samband við sig og beðið leyfis til að mynda, þegar Jón Ásgeir yrði gómaður við heimkomuna. Sé þetta rétt, þá hefur þetta verið brot lögreglunnar á trúnaði og mjög ámælisvert af hennar hálfu. Hitt er annað mál, hvort embættismanni eins og Jóhanni hafi verið stætt á að neita beiðni efnahagsbrotadeildarinnar.

Vinnubrögð í efnahagsbrotamálum

Jón Ásgeir á auðvitað heimtingu á réttlátri málsmeðferð eins og allir aðrir borgarar. Ég staldra við eina sögu bókarinnar. Guðjón Steinar Marteinsson héraðsdómari á að hafa hringt í Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, áður en svokallað Aurum-mál gegn Jóni Ásgeiri var tekið fyrir og skýrt honum frá því, að meðdómari yrði Sverrir Ólafsson, sem væri bróðir Ólafs Ólafssonar fjármálamanns (þótt Ólafur væri raunar hvergi viðriðinn Aurum-málið). En eftir að Jón Ásgeir var sýknaður, kvaðst sérstakur saksóknari ekki hafa vitað um tengsl Sverris og Ólafs. Sverrir reiddist þessu og lét frá sér fara óheppileg ummæli um saksóknarann, svo að sýknudómurinn var ógiltur í Hæstarétti, en eftir aðra meðferð málsins var aftur sýknað í því (bls. 374–375). Stendur hér orð gegn orði, og er óneitanlega vandséð, hvað dómaranum ætti að ganga til með því að segja ósatt um samtal sitt við saksóknarann. Hér þarf Ólafur Þór að gera hreint fyrir sínum dyrum.

Setjum svo rökræðunnar vegna, að Jón Ásgeir hafi sætt óþarflega harðri meðferð lögreglu og ákæruvalds. Það væri þá ekkert einsdæmi. Í Bandaríkjunum þykir saksóknurum fátt eftrsóknarverðara en taka auðmenn fasta og setja í handjárn fyrir framan suðandi sjónvarpsmyndavélar. Þeir vita sem er, að það er vel til vinsælda fallið, þótt oft séu fórnarlömb þeirra síðan sýknuð, eftir að þau hafa fært fram varnir sínar. Rudy Giuliani varð til dæmis borgarstjóri í New York fyrir slíka framgöngu. Eftir reynslu sína í Frakklandi ráðlagði Eva Joly sérstökum saksóknara feimnislaust að gera íslenskum auðmönnum eins erfitt fyrir og hægt væri um að verja sig, til dæmis með því að kyrrsetja eignir þeirra, afla nýrra og óvæntra gagna með húsrannsóknum hjá þeim og niðurlægja þá fyrir framan alþjóð. Mér finnst þetta ekki til fyrirmyndar, en hér skiptir höfuðmáli, að það þarf engan Davíð til að skýra slíka tilhneigingu lögreglumanna.

Afskipti Jóns Ásgeirs af fjölmiðlum

Menn skynja heiminn á ólíka vegu. Ég efast ekki um, að Jón Ásgeir hafi talið sig ofsóttan. Sannfæring hans um sök Davíðs í því efni virðist vera eins bjargföst og Jóns þumlungs forðum um galdra þeirra Jóns Jónssonar og tveggja barna hans. Það er eins og Jón Ásgeir geti ekki horfst í augu við þá staðreynd, að kvennamál þeirra feðga höfðu aflað þeim skæðra andstæðinga, sem lögðu nótt við dag í baráttunni við þá og töldu sig hafa engu að tapa. Eftir húsleitina í Baugi þyrptust að Jóni Ásgeiri eiturtungur, sem eygðu fjárvon með því að hvísla óhróðri í eyru hans, en æpa uppspuna eftir pöntun út í bæ. Þar var fyrirferðarmestur Gunnar Smári Egilsson blaðamaður, sem átti að baki langa þrotasögu. Gerðist hann eins konar áróðursstjóri Jóns Ásgeirs, sem keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana, sjónvarpsstöð, dagblöð og tímarit. Brátt varð Ísland of lítið líka fyrir Gunnar Smára, og vorið 2006 hófu þeir Jón Ásgeir útgáfu dansks auglýsingablaðs, Nyhedsavisen. Ég hef orðið þess áþreifanlega var, að það fyrirtæki hleypti illu blóði í ráðamenn í dönsku viðskiptalífi og jók tortryggni í garð íslensku bankanna, enda gaf Danske Bank út skýrslu skömmu seinna um, að þeir væru sennilega ekki sjálfbærir. Sleit bankinn öllum viðskiptatengslum við íslensku bankana og tók stöður gegn þeim á alþjóðlegum mörkuðum. Einar hefði haft gott af því að lesa bók eftir tvo danska blaðamenn um þetta ævintýri, sem Jón Ásgeir tapaði að minnsta kosti sjö milljörðum króna á, Alt går efter planen. Sýndi jón Ásgeir þar ótrúlegt dómgreindarleysi. Menn, sem afhenda Gunnari Smára ávísanahefti, eiga skilið að tapa fé.

Jón Ásgeir sagði mér sjálfur, að viðskiptasjónarmið ein hefðu ráðið því, að hann keypti upp nær alla íslensku einkamiðlana. Hann hefði verið að lækka auglýsingakostnað hjá sér, og þessir fjölmiðlar hefðu borið sig. Ég hristi höfuðið og brosti. Í bókinni heldur Einar því blákalt fram, að Jón Ásgeir hafi aldrei skipt sér af ritstjórn fjölmiðla sinna. Það er ekki rétt. Auðvitað þurfti hann sjaldnast að beita hörðu, því að flestir starfsmenn vissu vel, hver eigandinn væri og hvað væri honum þóknanlegt. Eitt fyrsta dæmið um afskipti var raunar, áður en hann keypti upp fjölmiðlana. Þá hafði gljátímaritið Séð og heyrt birt myndir af snekkju, sem Jón Gerald hafði rekið fyrir feðgana á Florida. Var heftið með myndunum snarlega tekið úr sölu í öllum verslunum Baugs, en það olli útgefandanum verulegum búsifjum. Til er talsvert af tölvuskeytum, sem Jón Ásgeir sendi stjórnendum fjölmiðla sinna til að kvarta undan skrifum einstakra starfsmanna, og voru þeir sumir reknir. En hvert áttu þeir að fara? Ríkisútvarpið og Morgunblaðið voru einu alvöru fjölmiðlarnir auk Baugsmiðlanna. Segja má, að ástandið á fjölmiðlamarkaðnum íslenska hafi verið eins og það er nú á samfélagsmiðlum í Bandaríkjunum, þar sem örfáir menn ráða öllum flutningi frétta og gagna. Jón Ásgeir sýndi afl sitt, þegar hann fékk forseta Íslands sumarið 2004 til að synja samþykkis fjölmiðlafrumvarpi, þar sem gert var ráð fyrir hömlum við einokun. Var það í fyrsta sinn í sögunni, að forseti gekk gegn ákvörðun Alþingis, en besti vinur Ólafs R. Grímssonar og kosningastjóri í forsetakjöri, Sigurður G. Guðjónsson, var sjónvarpsstjóri Jóns Ásgeirs, og dóttir hans starfaði hjá Baugi. Mér er ljóst, að bók Einars er varnarrit fyrir Jón Ásgeir, og er ekkert að því, en var ekki óþarfi að afneita alkunnum staðreyndum?

Afskipti Jóns Ásgeirs af flokkum

Tangarhaldi Jóns Ásgeirs á íslenskum fjölmiðlum má líkja við það, ef Jón þumlungur hefði fengið að stjórna einu prentsmiðju landsins á sautjándu öld. Ef til vill skiptir ekki öllu máli, að Jón Ásgeir lét reka nokkra fréttamenn, af því að honum líkuðu ekki fréttir þeirra. Þetta gera allir eigendur blaða. En fyrir tvennar kosningar var fjölmiðlaveldi hans beitt gegn Sjálfstæðisflokknum með markvissum lekum. Í fyrra sinn var það í aðdraganda kosninganna 2003. Þá birti Fréttablaðið stóra frétt á forsíðu, sem sótt var í fundargerðir stjórnar Baugs, og átti hún að vera Davíð Oddssyni óhagstæð. Hann hefði vitað meira um deilur Jóns Geralds Sullenbergers við Jón Ásgeir en hann hefði sagst vita. Stjórnarmenn undu að vonum þessum leka illa, og sögðu tveir þeirra sig úr stjórninni. Jón Ásgeir birti yfirlýsingu um það, að lekinn væri ekki frá sér kominn. Áróðursstjóri hans, Gunnar Smári Egilsson, sagðist geta staðfest þetta. Reynir Traustason skrifaði fréttina upp úr fundargerðunum. En í bók Reynis, Afhjúpun, sem kom út 2014 og Einar styðst sums staðar við í bók sinni, kemur fram (bls. 97), að þessi yfirlýsing Jóns Ásgeirs hafi verið ósönn. Lekinn var frá honum kominn, eins og lá raunar í augum uppi. Af hverju lét Einar þess ekki getið?

Fyrir kosningarnar 2009 birti sjónvarpsstöð Jóns Ásgeirs frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 30 milljónir króna í styrk frá FL-Group. Þessi uppljóstrun mæltist illa fyrir, enda var greiðslan há. Flýttu allir flokkar sér að upplýsa, hvað þeir hefðu þegið í styrki frá fyrirtækjum árið 2006, áður en takmarkanir voru settar á slíkar upphæðir. Sjálfstæðisflokkurinn sagðist hafa fengið 81 milljón í framlögum yfir milljón. Samfylkingin sagðist hafa fengið 36 milljónir í framlög yfir 500 þúsundum. Með þessa vitneskju fóru kjósendur inn í kjörklefann og refsuðu Sjálfstæðisflokknum. En í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í janúar 2010 kemur fram, að Sjálfstæðisflokkurinn fékk samtals 104 milljónir í framlög frá fyrirtækjum árið 2006, og er sú tala í góðu samræmi við fyrri upplýsingar, því að munurinn felst í framlögum lægri en milljón. Samfylkingin fékk hins vegar hvorki meira né minna en 102 milljónir í framlög frá fyrirtækjum þetta ár, og hefur aldrei fengist nein skýring á hinu hróplega misræmi á milli 36 og 102 milljóna. Hver skyldi síðan hafa lekið þessari frétt í sjónvarpsstöð Jóns Ásgeirs? Svarið er augljóst, ekki síst þegar bók Einars er lesin (bls. 272). Skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir líka, að Baugur og skyld fyrirtæki lögðu ekki jafnt til flokkanna, þótt Einar hafi eftir Jóni Ásgeiri, að sú hafi verið stefnan. Framlög til Samfylkingar og Framsóknarflokks voru verulegar, en til Sjálfstæðisflokksins óverulegar. Til dæmis lagði Baugur fram 5 milljónir til Samfylkingarinnar 2006, FL Group 8 milljónir og fjölmiðlafyrirtæki Jóns Ásgeirs, Dagsbrún, 5 milljónir, samtals 18 milljónir. Einar nefnir þetta ekki. En eins og Hallgrímur Helgason rithöfundur sagði í viðtali við DV 21. ágúst 2009: „Fyrir um það bil ári hitti ég háttsettan Baugsmann sem gumaði af því að hann gæti notað sína miðla eins og hann vildi. Þetta var sorgleg uppgötvun og ég hugsaði með mér: Fjandinn hafi það, Davíð Oddsson hafði rétt fyrir sér. Þetta voru og eru Baugsmiðlar.“ Auðvitað getur Einar þess ekki.

Kaupin á Glitni

Jón Ásgeir reifar enn þá fráleitu samsæriskenningu, að helsta áhugamál Davíðs Oddssonar í bankahruninu hafi verið að svipta sig eignum. En hin alþjóðlega lausafjárkreppa, sem hófst haustið 2007 og náði hámarki ári síðar, átti sér tvær meginorsakir. Í fyrsta lagi höfðu seðlabankar skapað peningaþenslu árin á undan með of lágum vöxtum og allt of ríflegum heimildum til húsnæðislána. Í öðru lagi hafði ný fjármálatækni, sem átti að auðvelda mat á útlánaáhættu, haft þveröfugar afleiðingar. Þegar fjármálastofnunum varð þetta ljóst, kipptu þær að sér höndum. Afleiðingin varð alþjóðleg lausafjárþurrð. Íslendingar fengu hvergi lán erlendis. Seðlabankinn gat prentað krónur til að bæta úr lausafjárþurrð, en hann gat ekki prentað dali, pund eða evrur. Tilraunir hans til að gera gjaldeyrisskiptasamninga var alls staðar hafnað. Einn aðstoðarseðlabankastjóri Englandsbanka sagði mér, að ein ástæðan væri, að bankamönnum hefði ekki litist á stærstu viðskiptavini íslensku bankanna, sérstaklega Jón Ásgeir. Ég held þó, að það hafi ekki ráðið neinum úrslitum, heldur hitt, að með innlánasöfnun sinni á evrópska efnahagssvæðinu ollu íslensku bankarnir uppnámi á fjármálamörkuðum.

Þegar fyrsti bankinn til að biðja Seðlabankann um neyðarlán reyndist vera Glitnir, brá ríkisstjórnin að tillögu Seðlabankans á það ráð að leggja bankanum frekar til hlutafé og færa eignir núverandi hluthafa niður. Gylfi Magnússon prófessor sagði opinberlega, að þetta væri „eftir bókinni“, og það er rétt. Þetta var til dæmis gert í lausafjárkreppu í Svíþjóð 1992. Jón Ásgeir var þá í nánum tengslum við Björgvin G. Sigurðsson bankamálaráðherra og spyr í bók þeirra Einars (bls. 294): „Hugsa sér, bankamálaráðherrann var ekki einu sinni látinn vita af því að þjóðnýta ætti einn af stærstu bönkum landsins. Er þetta eitthvað annað en valdarán?“ Ég er sammála Jóni Ásgeiri um, að þetta var óeðlilegt. En í skýrslu minni um bankahrunið er frásögn, sem þeir Davíð, Geir Haarde og Árni Mathiesen vottuðu allir. Davíð spurði, hvort ætti að halda Björgvini utan við ákvörðuna. Hann sagðist vilja heyra það af munni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sjálfrar. Hún staðfesti það beint við Davíð, þegar Geir hringdi til hennar úr skrifstofu Árna. Ég held, að þetta hafi verið alvarlegasta brotið á stjórnsýslureglum í bankahruninu, og á því bar Ingibjörg Sólrún fulla og óskipta ábyrgð, en rannsóknarnefnd Alþingis gerði samt ekkert úr þessu. Auðvitað átti bankamálaráðherrann að koma að kaupum ríkisins á banka. Ég er hissa á Einari og Jóni Ásgeir að sleppa þessu.

Einar endurtekur líka gamla og tilhæfulausa slúðursögu um samskipti Tryggva Þórs Herbertssonar og Davíðs. Þegar kaupin á Glitni voru til umræðu, komu starfsmenn Seðlabankans að Tryggva Þór í salerni Seðlabankahússins að tala lágum hljóðum í síma við Jón Ásgeir og skýra honum frá þróun mála. Davíð reiddist og sagði Tryggva, að hann kæmi ekki aftur inn í þetta hús, ef hann héldi uppteknum hætti. Ég spurði Tryggva Þór eitt sinn, hvort það væri rétt, að hann hefði verið í símasambandi við Jón Ásgeir við þetta tækifæri, og umlaði eitthvað í honum, sem ég skildi sem viðurkenningu. Davíð sagði Tryggva Þór ekki, að hann fengi ekki að koma aftur til Íslands, enda hafði hann auðvitað ekkert vald til að banna það.

Orsakir bankahrunsins

Bankahrunið var vitanlega ekki Jóni Ásgeiri að kenna, en hóflaus skuldasöfnun hans árin á undan bætti ekki um. Það er hins vegar alveg rétt, sem hann leggur áherslu á, að á móti skuldunum stóðu oft góðar eignir, sérstaklega í Bretlandi. Þeir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson leiða sterk rök að því í hinni ágætu bók sinni um bankahrunið, að eignasöfn íslensku bankanna hafi hvorki verið betri né verri að gæðum en eignasöfn banka víðast annars staðar. Menn fá skakka mynd af þessum eignasöfnum með því að einblína á brunaútsölurnar strax eftir hrun. Þar sem uppgjör fóru fram á skaplegan hátt, til dæmis á Heritable Bank og KSF í Bretlandi, reyndust bankarnir eiga vel fyrir skuldum ólíkt sumum öðrum bönkum, sem ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins bjargaði, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland. Hefðu RBS í Skotlandi, UBS í Sviss og Danske Bank í Danmörku ekki fengið þá lausafjárfyrirgreiðslu, sem Íslendingum var neitað um, þá hefðu þeir fallið.

Bankahrunið varð ekki vegna Glitniskaupanna, heldur vegna þess að innlánasöfnun íslensku bankanna á evrópska efnahagssvæðinu hafði mælst illa fyrir, jafnframt því sem ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins ákvað að bjarga öllum öðrum bönkum en þeim, sem voru í eigu Íslendinga. Hún hleypti þannig af stað atburðarás, sem lauk með falli þeirra allra þriggja. Skýringin á ákvörðun þeirra Gordons Browns forsætisráðherra og Alistairs Darlings fjármálaráðherra er nærtæk: Þeir vildu sýna skoskum kjósendum sínum, að sjálfstæði væri hættulegt, enda var dæmið af íslensku bönkunum óspart notað fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um sjálfstæði í Skotlandi 2014.

Saga um ofmetnað

Jón Ásgeir viðurkennir í bókinni, að hann og aðrir útrásarvíkingar hafi farið of geyst. Mér finnst saga hans ekki vera píslarsaga og því síður helgisaga, heldur um ofmetnað, sem Grikkir kölluðu hybris. Þessi geðslegi og prúði maður kunni ekki að setja sér mörk. Hann fór fram úr sjálfum sér. Hann blindaðist af velgengni sinni. Þegar hann kvartar undan ofsóknum gegn sér, er rétt að hafa í huga, að hann var um skeið einn auðugasti maður Íslands. Fórnarlömb þeysa venjulega ekki um í einkaþotum og lystisnekkjum. Og Jón Ásgeir hefur haft efni á að ráða sér bestu lögfræðinga og skrásetjara, sem völ er á. Einar leysir verkefni sitt af prýði, þótt hann vinni það sér til hægðarauka að taka alloft upp beina kafla úr ritum annarra. Hann leynir því ekki heldur, að þetta er ræða verjanda (eða eftir atvikum ákæranda) og ekki ígrundaður dómur, þar sem reynt er að komast að rökstuddri niðurstöðu með því að skoða öll málsgögn.

(Ritdómur í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir