Laugardagur 06.02.2021 - 11:22 - Rita ummæli

Nýfrjálshyggjan og lánsfjárkreppan

Í Morgunblaðinu 27. janúar 2021 kennir Ólafur Sigurðsson, fyrrverandi fréttamaður, nýfrjálshyggju um flest það, sem aflaga hefur farið í heiminum síðustu fimmtíu árin. Hann segir meðal annars, að hún hafi valdið lánsfjárkreppunni 2007–2009, en hún náði hámarki sínu haustið 2008 og hafði sem kunnugt er óskaplegar afleiðingar hér á Íslandi. Þetta er mikill misskilningur. Orsakir kreppunnar voru aðallega tvær. Í fyrsta lagi höfðu seðlabankar um heim allan stuðlað að lánsfjárþenslu með lágum vöxtum, og jafnframt hafði bandaríska ríkið hvatt og jafnvel neytt lánastofnanir til að veita húsnæðislán umfram greiðslugetu margra viðtakenda. Í öðru lagi hafði ný fjármálatækni, sem átti að auðvelda mat á áhættu, haft þveröfugar afleiðingar. Erfiðara varð að meta áhættu af fjárfestingum og útlánum. Þegar þetta varð ljóst haustið 2007, varð uppnám á fjármálamörkuðum og lausafjárþurrð.

Lánsfjárkreppan 2007–2009 var dæmigerð hagsveifla eins og Friedrich von Hayek hafði lýst í ritum sínum. Óeðlileg peningaþensla árin á undan (lágir vextir og óhófleg húsnæðislán) olli óeðlilegri bjartsýni og offjárfestingum, sem síðan varð að leiðrétta í niðursveiflunni. Það er hins vegar fróðlegt, að stjórnvöld gripu ekki til þeirra úrræða, sem John Maynard Keynes hafði lagt á ráðin um í heimskreppunni, víðtækra opinberra framkvæmda. Þess í stað bættu seðlabankar úr lausafjárþurrð lánastofnana með beinni og óbeinni peningaprentun, ekki síst verðbréfakaupum. Milton Friedman hafði í tímamótaverkum sínum einmitt leitt rök að því, að niðursveiflan í atvinnulífinu eftir 1929 hefði breyst í alvarlega heimskreppu, vegna þess að seðlabankar hefðu þá brugðist því hlutverki sínu að sjá lánastofnunum fyrir nægu lausafé.

Lánsfjárkreppan alþjóðlega 2007–2009 átti sér því orsakir, sem Hayek hafði greint, og viðbrögðin við henni voru þau, sem Friedman hafði lagt til. Annað mál er það, að ein ástæðan til þess, að lánastofnanir fara geyst, er, að þær þurfa oft ekki að taka afleiðingum óvarfærni sinnar. Þegar vel gengur, hirða þær gróðann. Þegar illa gengur, bjarga seðlabankar þeim. Þetta er ekki skynsamleg regla, og við Íslendingar sýndum þar raunar 2008, að heimurinn ferst ekki, þótt lánastofnunum sé ekki alltaf bjargað.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. febrúar 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir