Það má kalla gloppur í verkum fræðimanna, þegar þar vantar mikilvægar staðreyndir, ýmist af vangá eða vanþekkingu, svo að samhengi slitnar. Ein versta gloppan í verkum Jóns Ólafssonar um íslensku kommúnistahreyfinguna er í frásögn hans af fundi Einars Olgeirssonar í Moskvu í október 1945 með Georgí Dímítrov, yfirmanni alþjóðadeildar kommúnistaflokks Ráðstjórnarríkjanna (sem tók við af Komintern, Alþjóðasambandi kommúnistaflokka). Jón segir í bók sinni, Kæru félögum (bls. 141): „Ekki er ljóst af dagbókarfærslu Dimitrovs hvað þeim Einari fór á milli en þó hefur Einar rætt við hann um möguleika á viðskiptum landanna því að Dimitrov hefur skrifað hjá sér að Einar ætli sér næsta dag að hitta Anastas Mikojan, utanríkisviðskiptaráðherra.“
En samkvæmt dagbók Dímítrovs sjálfs 25. október 1945 bað Einar „um ráð um afstöðu flokksins og ríkisstjórnarinnar til stofnunar bandarískra herstöðva (flugvalla o. sv. frv.) til tjóns fyrir sjálfstæði Íslands, svo og um íslensk flokksmálefni“. Auðvitað hlutu þeir Dímítrov og Einar að ræða herstöðvabeiðni Bandaríkjanna, sem var mál málanna á Íslandi, en ráðstjórnin í Moskvu var einnig líkleg til að láta sig hana miklu varða. Dagbókarfærsla Dímítrovs kom fram á ráðstefnu, sem haldin var í Reykjavík 1998, ári áður en Jón gaf út bók sína, og vakti mikla athygli. Ég spurði Jón eitt sinn, hvers vegna hann hefði ekki getið um þetta, og kvað hann það hafa verið einfalda yfirsjón. Hvort sem þetta var tilraun til blekkingar eða yfirsjón, var þetta stór galli á bók hans, alvarleg gloppa.
Margar aðrar gloppur eru í verkum Jóns, en hér nefni ég aðeins eina. Hann segir í bók sinni, Appelsínum frá Abkasíu, frá Veru Hertzsch, þýskum kommúnista, sem flust hafði til Moskvu og eignast barn með Benjamín H. J. Eiríkssyni, þegar hann var þar á leyniskóla. Hreinsanir Stalíns stóðu sem hæst í desember 1937, þegar hún skrifar í bréfi til Benjamíns: „Greve hefur líka verið handtekin.“ Jón segir ekki ljóst (bls. 137), hver Greve væri. En Richard Greve var ritstjóri blaðsins, sem Vera starfaði við, og mynd er af honum og æviágrip í einni þeirra bóka, sem Jón vitnar í, Verratene Ideale eftir Oleg Dehl. Greve var handtekinn í nóvember 1937.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. mars 2021.)
Rita ummæli