Finnskur kennari við Háskólann á Akureyri, Lars Lundsten að nafni, skrifaði fyrir skömmu grein í Hufvudstadsbladet í Helsingfors um, að Ísland væri spilltasta landið í hópi Norðurlanda. Ég svaraði í blaðinu 7. apríl og benti á, að heimild hans væri hæpin. Hún væri alþjóðleg spillingarmatsvísitala, en eins og fram hefur komið opinberlega, hefur einkunn Íslands samkvæmt henni aðeins lækkað vegna þess, að tveir íslenskir matsmenn, Grétar Þór Eyþórsson (samkennari Lundstens á Akureyri) og Þorvaldur Gylfason, hafa metið Ísland niður nokkur síðustu ár án sýnilegrar ástæðu.
Ég benti einnig á, að venjuleg merki víðtækrar stjórnmálaspillingar væri ekki að sjá á Íslandi. Hér væri velmegun meiri og almennari en víðast hvar annars staðar og tekjudreifing jafnari, jafnframt því sem Ísland teldist friðsælasta land í heimi og með minnstu glæpatíðni.
Í svari sínu í sama tölublaði gerði Lundsten aðeins eina efnislega athugasemd. Hún var, að ég segði Samherja ranglega hafa verið sýknaðan í sakamáli vegna gjaldeyrisskila. Dómstólar hefðu ekki fellt efnislegan úrskurð í málinu. Lagaheimild hefði skort til þess.
Auðvitað er þessi athugasemd Lundstens fjarstæða. Menn og fyrirtæki verða einmitt ekki sakfelld, nema til þess sé lagaheimild. Í réttarríki ráða lögin, ekki mennirnir. Með dómi Hæstaréttar 8. nóvember 2018 var stjórnvaldssekt, sem Seðlabankinn hafði lagt á Samherja, numin úr gildi. Embætti sérstaks saksóknara hafði áður fellt niður meginþætti málsins gegn fyrirtækinu og látið svo um mælt í bréfi til þess, að það hefði lagt sig fram „af kostgæfni“ að fylgja settum reglum um gjaldeyrisskil, en um það snerist málið. Embætti skattrannsóknarstjóra, sem hafði líka skoðað málið, hafði ekki talið ástæðu til aðgerða. Mér er ekki ljóst, hvað Lundsten gengur til með þessari árás í erlendu blaði á eitt öflugasta útflutningsfyrirtæki landsins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. apríl 2021.)
Rita ummæli