Einn virtasti fræðimaður Íslendinga á alþjóðavettvangi, dr. Þráinn Eggertsson prófessor, er áttræður á þessu ári. Tvær bækur hans á ensku um stofnanahagfræði eru lesnar og ræddar í háskólum um allan heim. Ekki er síður um það vert, að Þráinn hefur í nokkrum snjöllum ritgerðum varpað ljósi hagfræðinnar á sögu Íslands. Ein þeirra er um ítöluna og birtist í International Review of Law and Economics árið 1992. Þar minnir Þráinn á samnýtingarbölið (tragedy of the commons). Ef margir nýta saman einhverja auðlind, þá er hætt við því, að hún verði ofnýtt, því að ávinningur af viðbótarnýtingu rennur óskiptur til nýtandans, en kostnaðurinn dreifist á alla. Eitt dæmi um þetta er beitarland í íslenskum afréttum að fornu. Hver sveit nýtti saman slíkt beitarland, en þá gátu einstakir bændur freistast til að reka of margt fé frá sér á fjall. Hrepparnir íslensku mynduðust ekki síst til að hafa stjórn á beitinni. Hver jörð fékk ítölu, eins konar kvóta, tölu þess fjár, sem reka mátti frá henni á fjall, og var heildartalan í hverri afrétt miðuð við, að eftir sumarið sneri féð aftur í eins góðum holdum og kostur væri frekast á. Hliðstæðan við núverandi kvótakerfi í sjávarútvegi leynir sér ekki, enda er vandinn sama eðlis.
Önnur ritgerð Þráins birtist í Journal of Economic Behavior and Organization árið 1996. Hún er um þá ráðgátu, hvers vegna Íslendingar sultu öldum saman heilu og hálfu hungri, þótt hér væri gnótt fiskjar. Þráinn telur skýringuna vera, að konungur og fámenn stórbændastétt hafi í sameiningu þrengt að sjávarútvegi, sem var að öðru óbreyttu arðbærasti atvinnuvegurinn. Konungur óttaðist, að ella gengi landið undan honum, eins og lá við að gerðist á „ensku öldinni“ svokölluðu, fimmtándu öld. Hann kaus frekar litlar skatttekjur en engar. Stórbændurnir vildu hins vegar ekki missa vinnuaflið að sjávarsíðunni. Útlendingum var því bönnuð veturseta, og landsmenn urðu að vera vistaðir á einhverju hinna fimm þúsund býla landsins og gátu aðeins stundað fiskveiðar í hjáverkum. Með konunglegum tilskipunum var verð á fiski fært langt niður frá markaðsverði, en verð á landbúnaðarafurðum að sama skapi fært upp. Afleiðingin var, að Ísland festist í fátæktargildru, sem það losnaði ekki úr, fyrr en yfirvöld í Kaupmannahöfn höfðu skilið kenningu hagfræðinnar um kosti alþjóðlegrar verkaskiptingar og viðskipta. Þráinn Eggertsson er einn fremsti fulltrúi þeirrar rannsóknarhefðar á Íslandi.
Rita ummæli