Laugardagur 24.04.2021 - 10:49 - Rita ummæli

Klám og vændi í stjórnmálaheimspeki

Á meðan ég kenndi stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands, reyndi ég eftir megni að hugsa upp rök með og á móti ólíkum sjónarmiðum, reyna á þanþol hugmynda, rekja þær út í hörgul. Heimspekin á að vera frjó samræða, ekki einræða. Eitt sígilt umræðuefni var, hversu langt ríkið mætti ganga í að lögbjóða það, sem er á hverjum tíma talið gott siðferði. Ætti löstur að teljast glæpur? Eins og ég hafði kynnst, þegar ég nam stjórnmálaheimspeki í Reykjavík og Oxford, var þá nærtækt að ræða rök með og á móti því að banna með lögum vændi og klám. Það varð að vísu erfiðara með árunum að ræða þau mál, því að öfgafemínistar í röðum nemenda urðu sífellt aðsópsmeiri og vildu ekki hlusta á nein rök með því að leyfa þetta hvort tveggja. Þetta væri niðurlæging og kúgun kvenna, og með því væri málið útrætt. Þegar ég hreyfði því til dæmis, að hugsanlega mætti leyfa vændi af mannúðarástæðum, því að til væru hópar, sem gætu ekki vegna líkamslýta eða offitu útvegað sér rekkjunauta nema með því að greiða fyrir það, var ég sakaður um „fitusmánun“ og fordóma gegn fötluðum.

Kúgunarrök bannkvenna áttu eflaust stundum við áður fyrr, en þau hafa veikst, því að með netinu hafa milligöngumenn og hugsanlegir kúgarar að miklu leyti horfið, ekki síst þegar um klám er að ræða: Nú selja stúlkur beint aðgang áhorfenda sinna að lostugu athæfi, eins og fram hefur komið hér í blaðinu. Ég hafði hins vegar ekki ímyndunarafl til að smíða dæmi eins og það, sem ég rakst á nýlega um niðurlægingarrökin. Nokkrar konur í Toronto í Kanada ráku stofnun, sem yfirvöld töldu vændishús. Þær mótmæltu harðlega og skutu málinu til dómstóla. Þær buðu í fyrirtæki sínu upp á kynlífsleiki, þar sem ekki var um neina beina líkamlega snertingu að ræða, heldur voru þær í hlutverki kvalara eða drottnara, iðulega leðurklæddar, í netsokkabuxum og með svipu í hendi, og greiddu karlarnir, viðskiptavinir þeirra, fyrir að láta niðurlægja sig á ýmsan hátt. Konurnar unnu málið fyrir Hæstarétti Kanada árið 2013, og komust dómararnir að þeirri almennu niðurstöðu, að bann við vændi svipti konur, sem seldu blíðu sína, lagavernd og neyddi þær niður í neðanjarðarhagkerfið. Þegar ég las um þetta dómsmál, velti ég því fyrir mér, hvernig kalla mætti það niðurlægingu kvenna, að þær fengju sérstaklega greitt fyrir að niðurlægja karla. En eflaust myndu öfgafemínistar reyna að banna umræður um þá spurningu í stað þess að svara henni.

[Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. apríl 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir