Laugardagur 01.05.2021 - 10:52 - Rita ummæli

Undirstaðan réttleg fundin

Í gær, hinn 30. apríl 2021, voru þrjátíu ár frá því, að Davíð Oddsson myndaði sína fyrstu ríkisstjórn. Hann átti eftir að verða forsætisráðherra í nær fjórtán ár, lengst allra manna, jafnt samfellt og samtals. Enginn vafi er á því, að þá urðu tímamót í Íslandssögunni, þótt margt væri í rökréttu framhaldi af því, sem áður hafði áunnist.

Stefna Davíðs var einföld og tvíþætt. Í fyrsta lagi vildi hann færa íslenska hagkerfið nær því, sem stóð í grannríkjunum, en hér voru enn margvísleg höft í gildi. Þetta tókst vonum framar. Árið 1991 var atvinnufrelsi á Íslandi samkvæmt alþjóðlegum mælingum minnst á Norðurlöndum, en árið 2004 var það mest.

Í öðru lagi vildi Davíð færa völd og fjármagn úr höndum ríkisins, embættismanna og atvinnustjórnmálamanna, í hendur almennings, skattgreiðenda, neytenda og fjárfesta. Þetta tókst með skattalækkunum og sölu ríkisfyrirtækja. Skattalækkanirnar höfðu ekki í för með sér lægri tekjur ríkissjóðs, því að skattstofnar stækkuðu. Lítil sneið af stórri köku getur verið stærri en stór sneið af lítilli köku. Sala ríkisfyrirtækja fól í sér, að fjármagnið varð virkt í stað þess að vera dautt. Hinir nýju eigendur gátu lagt niður fyrirtæki, sameinað þau öðrum, hlutað þau í sundur eða rekið þau áfram eftir efnum og ástæðum. Áður höfðu þessi fyrirtæki lotið sama lögmáli og kampavínið: þegar illa gengur, þarftu þess með; þegar vel gengur, verðskuldarðu það. Tap var talið sýna, að meiri framlaga væri þörf. Gróði var talinn sýna, að meiri framlög væru skynsamleg. Ekki var hreyft við neinu, allt gert eins og áður.

Sumir hafa bankahrunið 2008 til marks um, að stefnan hafi brugðist. Þessu er þveröfugt farið. Eins og ég sýndi fram á í skýrslu fyrir fjármálaráðuneytið fyrir nokkrum árum, féllu íslensku bankarnir, af því að þeir fengu ekki þá lausafjárfyrirgreiðslu frá seðlabönkum stærri landa, sem bjargaði til dæmis Danske Bank í Danmörku, RBS í Skotlandi og UBS í Sviss, en án hennar hefðu þessir bankar og fleiri fallið. Íslenskt atvinnulíf var þó ekki lengi að ná sér eftir áfallið. „Varðar mest til allra orða, undirstaðan sé réttleg fundin,“ orti Eysteinn Ásgrímsson í Lilju. Ástæðan til þess, að vel gekk, er, að undirstaðan, sem lögð var 1991–2004, var traust. Hún var réttleg fundin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. maí 2021.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir